Lítið hefur orðið úr ásetningi mínum að skrifa reglulega pósta hér inn. Dagarnir líða og verða að vikum og vikur að mánuðum og svo er allt einu komið nýtt ár. Árið 2024 er i storum dráttum líkt fyrri árum, þeas eftir að við komumst á eftirlaun. Lifið okkar er fremur rólegt og við njótum þess að búa í Ársölunum með góðu útsýni bæði til sjávar og Snæfellsjökuls þegar hann sýnir sig. Svo er það sveitin okkar dásamlega sem heimsótt er reglulega, eða þegar veður gefur og við erum í stuði. Það var mikið gæfuspor þegar við ákváðum að kaupa sumarhús í Munaðarneslandi sem við gáfum nafnið Lyngholt og ber nafn með rentu.
Þrátt fyrir leiðindatíð í sumar vorum við meira og minna í sveitinni. þar andar maður inn heilnæmu lofti nýtur litadýrðar hverng sem viðrar. Ófá augnablik af umhverfi okkar hafa verið fest á „filmu“ enda er ég einlægur aðdáandi litadýrðar náttúrunnar óháð árstíð.
Börnin okkar og barnabörn kunna að meta perlu okkar í Borgarfirðnum. Þau koma og aðstoða þegar þörf er á, hafa byggt geymsluskúr og skipt um heitan pott. Þeim finnst gott að eiga skemmtilegar stundir þarna, og við erum glöð að húsið okkar er notað.
í grenjandi rigningu héldu þau ótrauð áfram, Runólfur yfirsmiður , Heiðrún og Árni Geir sögðu niður viðinn og límdu einangrun á pottinn. Á einni helgi var verkið klárað.



