
Það ríkti mikil eftirvænting í litla húsinu við Akurgerði á Akranesi vorið 1948. Þar bjuggu nýgiftu hjónin Geirlaugur og Sveinbjörg, sem eru foreldrar mínir. Þau höfðu flutt þangað í ágúst árið áður. Mamma hafði gert heimilið vistlegt með ýmsum hannyrðum sem hún hafði ýmist saumað eða ofið á húsmæðraskólanum á Hallormsstað.
Pabbi hafði keypt rakarastofuna af föður sínum og rak hana. Á rakarastofunni hafði hann staðið síðan hann var 12 ára. En hann aðstoðaði föður sinn sem missti konuna sína frá átta börnum einmitt þegar pabbi var 12 ára.
Hér að neðan er mynd af Árna afa og Þóru ömmu sem ég rakst á í ljósmyndasafni Akraness. hann fæddur 1895 og hún fædd 1898 og lést 1939.

Allt var tilbúið fyrir komu fyrsta barnsins. Útsaumuð sængurföt, hvítir ungbarnanáttkjólar, prjónaðar peysur, buxur, sokkar og húfur og heklað teppi.

Laugardaginn 29. maí kom ég svo í heiminn. Ég var 12 og hálf mörk með dökkan koll og þótti frekar lítil.
11. júlí var ég skírð og var látin heita í höfðuð Ingu ömmu og eftir Þóru ömmu. Amma Inga hét að vísu Ingiríður og var alltaf kölluð Inga vildi alls ekki láta heita Ingiríðarnafninu.

Tæplega ári síðar fæddist svo Kári bróðir eða 15. Maí 1949. Mamma sagði mér oft að ég hafi verið mjög fljót til máls og þegar hann fæddist hafði ég sagt ”ka e etta”? Og benti á hann. Var ég að sögn mikill ráðsmennskurass og lét ekki taka af mér hluti sem ég hafði nælt mér í og læddist stundum að vöggunni og reif út úr honum snuðið. Þegar skipta átti einhverju á milli mín og einhvers annars hafði ég stappað niður fótum og öskrað ”ekki gitta milli”.
Í afa og ömmuhúsi. Síðla árs 1949 fluttum við litla fjölskyldan að Háholti 12 þar sem afi Arnmundur hafði byggt stórt hús. Tvær hæðir og ris. Á neðri hæðinni bjuggu Siggi bróðir mömmu og Valla konan hans með sína stráka sem voru á nákvæmlega sama aldri og við Kári, Arnar Þór og Valur, seinna bættust þrjú systkini við, þau Inga Björg, Haukur og Árdís María. Við bjuggum á efri hæðinni með ömmu og afa. Eldhúsið og baðherbergið var sameiginlegt en við höfðum stórt svefnherbergi og góða stofu. Í miðjunni var stórt hol, en amma og afi höfðu tvö samliggjandi herbergi innst í holinu. Eitt herbergi var inn af forstofunni og var það notað sem gestaherbergi eða vinnu- herbergi.

Við Kári í nýjum heimasaumuðum fötum. á fallegum sumardegi fyrir utan húsið að Háholti 12.
Afi Arnmundur og amma Inga

Afi Arnmundur var hávaxinn á þeirra tíma mælikvarða og, sterklega vaxinn eilítið álútur í öxlum en bar sig vel. Augun frekar lítil þykkar augabrúnir nefið beint og varir frekar þunnar. Afi hreyfði sig frekar hægt og lét ekki mikið fyrir sér fara. Þegar hann var ekki í vinnunni þá sat hann yfirleitt með bók sér í hönd. Stundum reykti hann pípu. Þar bjuggum við þangað til ég var 8 ára, en þá fluttum við að Heiðarbraut 7 þar sem pabbi hafði með mikilli eljusemi byggt hús.
Afi vann í síldarverksmiðjunni á Akranesi og geymdi hann vinnufötin sín uppi á háalofti sem var geymsluloft, þar sem lyktin af þeim var ekki sérstaklega góð, en amma var með afbrigðum þrifin kona og þetta var eflaust fyrirskipun frá henni. Afi skipti sér ekki mikið af okkur krökkunum en tók okkur mjög vel ef við leituðum til hans hann var td. duglegur að segja mér til stærðfræði ef ég þurfti á því að halda.
Amma var frekar lágvaxin, bein í baki með dökkt hár, frekar þunnt, sem hún greiddi ávallt í fléttur og vafði um höfuðið. Hún var alltaf til staðar fyrir okkur börnin og þeim kom mjög vel saman mömmu og henni enda deildu þær eldhúsi. Hún vann við að skúra kaupfélagsbúðina eftir lokun. Amma var mjög kát kona og sagði oft hnyttnar sögur og með orðatiltækjum og líkingum sem lifðu lengi í fjölskyldunni. Eins og td. ”Hann er eins og skinin hundaskítur á hól” ef einhver var fölur, eða af sama tilefni ” hún er eins og gröftur upp úr gröf” eða ” hún er eins og mjölráfa”. Um einhvern sem var með ólæti: ” hann er eins og óð mús í hlandkeraldi”.
Einhvern tíma var afi illa kvefaður og það þótti gott að fá sér eitthvað krassandi við kvefi. Pabbi rak rakarastofu og alltaf var till spritt eða hreinn spíritus í efstu hillunni í eldhússkápnum. Pabbi notaði þetta til að sótthreinsa greiður og fleira á rakarastofunni. Nú, afi teygir sig eftir flöskunni og sýpur góðan gúlsopa. Amma og ég vorum staddar í eldhúsinu og hafði hann ekki fyrr kyngt sopanum en hann tók þessi hrikalegu sog hvað eftir annað. Ég, barnið, hélt að hann væri að gefa upp öndina, en amma sem hafði staðið við hlið hans engdist um af hlátri og lyppaðist niður á stól, þar sem hún hélt áfram góða stund að hlæja. Þegar afi hafði loks náð andanum horfði hann forviða á ömmu og sagði: ”hvað er þetta kona?” Ég horfði stóreyg á og skildi hvorki upp né niður, hafði áhyggjur af afa og fannst skrýtið að amma skyldi hlæja að þessu. En ég skildi ömmu betur seinna, þar sem ég á líka erfitt með að hlæja ekki að óförum annarra. En amma var einstaklega hláturmild og sá gjarnan spaugilegu hliðar lífsins, sem hefur eflaust oft komið sér vel í gegnum það líf sem hún hafði lifað.
Daglega lífið.
Lífið að Háholti 12 var áreiðanlega mjög hefðbundið á þeirra tíma mælikvarða. Mamma var heima með okkur börnin og pabbi vann alla daga og oft á laugardögum líka. Húsverk og heimilsstörf tóku allan daginn hjá mömmu. Á morgnana var búið um rúmin, skúruð gólf, farið í búð til að versla í hádegismatinn, kannski var bakað brauð eða eitthvert annað meðlæti, oft voru heimabakaðir snúðar, vínarbrauð með rabbarbarasultu eða kleinur á boðstólum með eftirmiðdagshressingunni. Pabbi kom alltaf heim í hádeginu eins og allir vinnandi karlmenn á Skaganum gerðu og var þá rakarastofan lokuð á meðan. Hann fór sinna ferða á reiðhjóli með slá og bögglabera. Oft fengum við Kári að sitja reiðskjótann með pabba, Kári var þá á slánni og ég á bögglaberanum. Ekki var um neina hjálma að ræða á þeim tíma.
Flestar máltíðir buðu upp á fisk með ýmsu móti. Stundum var soðning með kartöflum og floti, saltfiskur öðru hverju, eða jafnvel skata með hamsatólg. Alltaf var einhver eftirmatur, súpa eða grautur. Í miðri viku var eitthvert kjötmeti, kjötsúpa eða kjötbollur og um helgar var lambakjöt með grænum baunum, kartöflum, rauðrófum, rabbabarsultu og sósu. Í eftirmat var oft ávaxtagrautur með rjómablandi, stundum var mamma með grjónabúðing með krækiberjasaft út á. Pabbi hafði þann vana áður en hann byrjaði að borða að spyrja: ” hvað er á eftir?” Greinilega að borða sig ekki of saddan ef eftirrétturinn væri eitthvað spennandi.
Eftir hádegismatinn þegar öllum morgunverkum var lokið skipti mamma oft um föt – fór úr morgunkjólnum í eftirmiðdagskjól. – Við krakkarnir vorum mikið úti að leika okkur á sumrin og fram eftir hausti og alltaf þegar veður leyfði. Á sumrin hafði mamma yfirleitt barnapíu sem hafði ofan af fyrir okkur krökkunum. Mömmu féll aldrei verk úr hendi, alltaf þegar hún hafði lausa stund var hún sest niður með handavinnu, sem var oftast að búa til einhver föt á okkur krakkana, ýmist að prjóna eða sauma. Öll okkar föt voru heimatilbúin að mestu. Hún saumaði oft upp úr gömlu og var ótrúlega útsjónarsöm og smekkleg. – árin á Hallormsstað komu sér greinilega vel bæði hvað varðar hannyrðir og matargerð.
Á haustin var farið til berja og voru þá krækiberin tínd í sekkjum. Úr þeim var búin til krækiberjasaft, sem við ýmist drukkum eða hún var notuð út á grauta eða í súpur. Mömmu var umhugað að við fengjum í okkur rétt næringarefni og aldrei var boðið upp á franskbrauð. Það var yfirleitt alltaf brauð úr rúgi og heilhveiti, ýmist heimabökuð eða keypt í bakaríinu. Þær mæðgur tóku einhver ósköp af slátri og unnið var úr öllum hlutum skepnunnar. Sumt var sett í súr og annað í frysti, en þá var hægt að leigja frystihólf í kaupfélaginu. Var ég oft send til að sækja frosinn mat í ískaldan klefann í kaupfélaginu. Síldartunna með saltaðri síld stóð úti á svölum ásamt tunnu með söltuðu hrossakjöti. Mér er það minnisstætt að karlarnir í húsinu á Háholtinu tóku að sér að svíða kindahausana og lappirnar sem síðan voru soðnar og búin til sviðasulta úr þeim. Lyktin er mér í fersku minni, en þetta var auðvitað gert utandyra með sérstökum gaslömpum.
Mamma hafði eignast vefstól og naut þess að þróa veflistina áfram. Fór á námskeið sem haldin voru á Skaganum. Þær voru nokkrar konur sem aðstoðuðu hver aðra við að setja upp vef sem var heilmikið fyrirtæki, sérstaklega þegar ofin voru heilu gólfteppin. En mamma óf gólfteppi á borðstofuna og holið í nýja húsinu okkar, ásamt ýmsum mottum sem notaðar voru fyrir framan rúmin. Hún óf einnig alls kyns litla dúka eða servíéttur með fallegum mynstsrum. Vefstólinn var hafður í forstofuherberginu og sat mamma öllum lausum stundum við að vefa ári áður en við fluttum á Heiðarbrautina. Sat ég oft og horfði á hana vefa. Það voru pedalar sem hún steig á allt eftir því hvað munstur hún var að gera. Síðan var skyttunni með garninu skotið á milli þráðanna og svo var tekið í sláttutréð og vefurinn óx smám saman. Mér fannst þetta göldrum líkast.
Pabbi vann mjög mikið eins og fram hefur komið. Hann fór ma. upp í Hvalfjörð reglulega til að klippa ”Kanana” sem dvöldu á herstöðinni þar. Það fékk hann borgað með dollurum sem hann safnaði til seinni utanlandsferða. Það var hátíð í bæ þegar hann kom með allt ameríska sælgætið, sem maður hafði aldrei séð áður. – Hann fór einnig reglulega í Borgarnes til að klippa og einnig í heimavistarskólana í Reykholti og Bifröst. – Auk föstu vinnu sinnar stjórnaði hann Karlakórnum Svönum. Það var mikið starf sem hann hafði mikla ánægju af. Hann skrifaði mikið af nótum sem voru svo fjölritaðar og notaði hann oft dauða tíma á rakarastofunni til þess. Þá var hann listaskrifari og tók að sér að skrifa auglýsingar fyrir hina ýmsu viðburði í bæjarlífinu og skrautritaði á bækur.
Þriðja barnið fæðist
Mínar fyrstu minningar tengjast fæðingu Harðar bróður. Hann fæddist 12. september 1951. Pabbi hafði á því sama ári smíðað hjónarúm, kojur fyrri okkur Kára og rimlarúm handa Herði. Hann fékk aðstöðu á trésmíðaverkstæði hjá gömlum vini sínum. Pabbi var þúsundþjalasmiður og áræðinn með eindæmum. Öll húsgögnin voru völundarsmíð og í stíl. Hjónarúmið var notað alla þeirra hjúskapartíð og kojurnar hafa komið að góðum notum hjá ýmsum í fjölskyldunni. Við smíðarnar fékkst pabbi eftir langan vinnudag og um helgar.
Hörður Skírður ásamt Ernst Backman í stofunni heima á Háholti. Fjórir dagar voru á milli frændanna. Hér ásamt feðurum sínum. 
Við sváfum öll í sama herbergi og er mér sérstaklega minnisstætt að vakna að morgni 12. september í öðru herbergi og fara inn í svefnherbergi þar sem Hörður hafði fæðst um nóttina og sjá þennan litla fallega bróður minn með kolsvartan koll. Hörður var einstaklega rólegt barn og truflaði lítið okkur eldri systkinin. Honum þótt matur góður um leið og hann fékk fasta fæðu. Hann gaf frá sér hljóð í hvert skipti sem skeið var stungið upp í hann og gafa frá sér hljóði ”gomm” í hvert skipti. Afi kallaði hann því gommarann.
Ég var ekki stór þegar ég var farin að druslast með Hörð um Skagann og man ég eftir að hafa verið með hann á skíðasleða niðri í bæ, en þá var hægt að vera á sleða á götunum. Hann sat stilltur og prúður á sleðanum og mig minnir að mamma hafi bundið hann með trefli svo að hann dytti ekki af. Einu sinn í okkar ferðalögum um bæinn tekur hann til að gráta og segir: ”mér er svo kalt”. Ég var náttúrlega ekkert að hugsa um það, var sjálf á fleygiferð með hann á sleðanum og sjóðandi heitt. Annað skipti líka að vetri til var ég send út með hann og Jóhanna Einars frænka mín var með í þeirri ferð. Rétt ofar í bænum voru mógrafir sem var auðvitað búið að banna okkur að vera nálægt þar sem vatn hafði safnast fyrir í þeim. En við ráfuðum þangað og sáum að vatnið hafði lagt á gröfunum. Mér fannst þetta svolítið spennandi og fór út á ísinn og renndi mér. Jóhanna stóð ásamt Herði og horfði á og var ég búin að banna þeim að koma út á ísinn. En Herði fannst þetta greinilega mjög spennandi líka og hlammaði sér út á ísinn og með það sprakk hann og fórum við bæði í ískalt vatnið upp að höndum og komumst einhvern veginn upp á bakkann. Þarna hefði getað farið illa. En það var skömmustuleg stóra systir sem mætti heim með litla bróður sinn sem henni hafði verið trúað fyrir.

Hörður var mikill pabbastrákur og sat oft löngum stundum á rakarstofunni og fylgdist með samtölum pabba við karlana. Enda var hann eins og fréttastofa. Hann vissi hvað hver einasti bátur á Skaganum fiskaði, hver var skipstjóri og þekkti alla báta af löngu færi. Hann var einnig tíður gestur í vigtarskúrnum við bryggjuna, þar sem fiskurinn var vigtaður og þekkti þess vegna meira og minna alla sem keyrðu vörubílana með fisknum á. Hörður var mjög orðheppinn og sagði oft sögur úr bæjarlífinu. Eitt sinn var hann með foreldrum okkar í Ölver, kannski 7-8 ára og sat til borðs með fullorðnu fólki, þar á meðal var Sverrir Sverrisson, skólastjóri Iðnskólans á Akranesi, en hann var ókvæntur. Hörður hafði áhyggjur af þessu kenmannsleysi Sverris og í miðjum samræðum tókst Herði að ná athygli hans og sagði: ” Sverrir, þú ættir nú bara að fá þér ekkju”. Það er ekki að orðlengja að Sverri var mjög skemmt og hló lengi og innilega að þessum orðum drengsins. En hann tók þetta nú ekki til sín og kvæntist aldrei.
Mikið líf var í húsinu og börnunum fjölgaði á báðum hæðum. Samgangur var mikill og lékum við saman bæði úti og inni. Hanna systir mömmu og Halldór Backman bjuggu skammt frá okkur á Skagabraut 5 og voru þær systur líka mjög nánar. Arnmundur var elstur þeirra barna fæddur 1944 og Inga Jónína fædd 1947 og vorum við góðar vinkonur og lékum okkur oft saman. Ekki var mikið um leikföng. En búleikir voru vinsælir og þá sérstaklega á sumrin. Við urðum okkur úti um einhverja trékassa sem var raðað saman. Gamlir bollar, diskar, dósir og lítil dúkkubollastell þegar best lét var notað. Svo voru búnar til drullukökur, sem skreyttar voru með blómum, sóleyjum og fíflum og haldin kaffiboð á grasinu.
Ég fékk forláta dúkkuvagn úr tágum í jólagjöf trúlega þegar ég var fimm ára og í vagninn fékk ég dúkku með fléttur. Þetta þótti með afbrigðum flott á þessum tíma. Pabbi hafði greinilega góð sambönd við einhverja sjómenn sem hann klippti og þeir komu með góssið frá útlöndum. Strákarnir fengu forláta vorubíla sem pabbi hafði smíðað. Annars var mikið spilað á spil og við stelpurnar lékum okkur mikið með dúkkulísur sem við klipptum út. Oft bjuggum við sjálfar til fötin á þær.
Fjórða barnið bætist í hópinn

Þura systir er fjórða í röð okkar systkina og fæddist 1954 í mars. Ég átti að fá að vera hjá afa Árna og Viktoríu þegar mamma eignaðist barnið og var ég hjá þeim eina viku eða meðan mamma var á sjúkrahúsinu. Þura fæddist með skarð í vör og fékk ég ekki að fara strax og sjá hana. Viktoría fór á spítalann til mömmu og sagði mér á mjög nærgætinn hátt að barnið væri með lítið skarð í vörinni. En hún væri mjög falleg þrátt fyrir það og hægt væri að laga þetta. Ég man ekki eftir að ég kippti mér neitt sérstaklega upp við þetta. Mamma svaf í stofunni fyrst á eftir til að geta sinnt henni betur á nóttunni. Í byrjun maí fór mamma með Þuru til Kaupmannahafnar með Gullfossi til að láta gera við vörina.

Ég var send austur í Vík í Mýrdal til Öddu systur mömmu á meðan. Kári og Hörður voru hjá ættingjum á Akranesi. Ferðin austur í Vík er mjög minnisstæð. Ég sem var tæplega 6 ára var sett upp í rútu og bílstjórinn átti að hafa auga með mér. Þetta var löng ferð, tók örugglega 5 klukkutíma. Þegar við fórum niður Kambana leist mér ekkert á blikuna, fannst rútan alltaf vera að fara út af. Ég hélt mér dauðahaldi í rör sem var fyrir ofan sætið fyrir framan og var dauðhrædd. Þar fyrir utan var ég bílveik og leið mjög illa. Á leiðinni var stoppað á Hellu og þar var farið inn á kaffihús og einhver sá til þess að ég fékk einhvejar veitingar, sem ég skilaði beint í klósettið. Einhver kona stumraði yfir mér. Fegin var ég þegar við komum á áfangastað og Adda frænka kom og tók á móti mér. Hjá Öddu og Jónasi dvaldi ég sennilega uþb. mánuð. Gisli hefur verið tveggja ára og fannst mér hann bara smábarn sem ég gat lítið leikið mér við. Ég lék mér við einhverja krakka í nágrenninu og var oft ein inni að leika mér að lítilli dúkku sem mamma hafði gefið mér og átti dúkkan þó nokkuð af fötum sem fylgdu með. Þetta þótti mér hinn mesti fjársjóður. Auk þess var ég með tvær þrjár bækur sem ég átti, fyrsta bókin sem ég eignaðist hét Alfinnur álfakóngur, og pabbi gaf mér hana þegar ég var orðin læs. Seinna í mánuðinum varð ég sex ára
Í þorpinu voru tvær verslanir, kaupfélagið og Verslunarfélagið. Framsóknarmenn versluðu við kaupfélagið en hinir versluðu við Verslunarfélagið. Jónas var ekki framsóknarmaður þannig að verslunin fór fram við Verslunarfélagið. Þarna fékkst allt milli himins og jarðar allt frá verkfærum, hannyrðavörum, bókum til alls kyns matvöru nema nýmetis eins og kjöt og fiskur. Fiskur var sóttur, frosinn, á annan stað og mjólkin var keypt á bóndabæ í útjaðri þorpsins.
Þegar ég kom til Öddu tók ég eftir appelsínflösku sem geymd var í eldhússkápnum. Aldrei datt mér í hug að spyrja um hvort ég mætti fá appelsín. En daginn sem ég var 6 ára var flaskan opnuð og ég fékk bók í afmælisgjöf, Mjallhvít og dvergana sjö, með myndum Walt Disney, framan á og inni í bókinni. Mér fannst þetta fjársjóður og hún var lesin aftur og aftur og dáðst endalaust að myndunum. Mamma og pabbi komu heim með Þuru og lífið gekk sinn vanagang.Þeim fannst ferðin til Kaupmannahafnar ævintýri og þar sáu þau fyrst þeldökka menn með eigin augum og fóru í dýragarð og Tívoli. Pabbi sýndi okkur myndir og þótti okkur þetta allt mjög merkilegt.
Nágrannar og vinkonur Vinsælt var á sumrin að fara inn á Langasand og vaða í sjónum og þegar maður var orðinn syndur þá var gaman að synda í sjónum. Þá var stundum tekið með nesti og nivea krem til að brenna ekki í sólinni. Seinna var mér ljóst að kremið hefur sennilega veitt litla vernd en gerði það að verkum að sandurinn klesstist enn frekar við húðina.
Ég átti vinkonu í næsta húsi og vorum við fjarskyldar frænkur og jafnöldrur. Hún heitir Adda. Við lékum okkur oft saman og þá oftast heima hjá henni. Þar voru ekki jafnmörg börn. Hún átti einn bróður ári eldri. Oftast lékum við okkur í forstofunni sem var lokuð af og sátum á gólfinu með dúkkur og dúkkulísur. Enginn truflaði okkur því að flestir fóru um annan inngang sem var þvottahúsinngangur. Á efri hæðinni í risíbúð bjuggu amma hennar og afi og fengum við stundum að fara upp á loftið til þeirra og þáðum eitthvað gott í munninn hjá Guðrúnu ömmu hennar. Við systkinin gátum yfirleitt ekki tekið krakka með inn til að leika þar sem ekki var pláss til þess.
Margir krakkar voru í nágrenninu og var oft farið í alls kyns útileiki. Feluleik, síðastaleik, fallin spýtan, saltabrauð, stórfiskaleik, ýmsa boltaleiki eins og hornabolta og slábolta. Þá var gatan notuð sem leikvangur þar sem fáir bílar óku efir götunni. Ég man aðeins eftir einum manni sem átti bíl í okkar götu. Hann bjó í húsinu á móti og lét bílinn oft ganga lengi á morgnana áður en hann fór af stað, sennilega til að hita hann. Stór stétt var fyrir framan húsið okkar og ef okkur áskotnaðist krítarmoli var hægt að teikna parís á stéttina annars voru uppþornuð moldarflög eða gatan notuð til að teikna parísa. Parísarnir voru af ýmsum gerðum, karlaparís, kerlingaparís og lúsagataparís. Svo var gataparís en hann þurfti að leika á steyptri stétt.
Lítil hús kofar eða skúrar voru vinsælir til að nota í ”yfir”. Eitt sinn vorum við að leika okkur við skúr sem var rétt við hús Hönnu frænku. Hægt var að renna sér niður þakið og lenda á öðrum skúr með flötu þaki. Markmiðið var að vera fyrstur niður á flata þakið. Ég var á endanum og sá sem var við hliðina á mér vildi vera á undan og ýtti í mig með þeim afleiðingum að ég datt út af þakinu. Á leiðinni niður rakst ég í járnadruslu sem hékk út úr kofanum og skarst á kinnbeininu. Öskrin hafa örugglega verið talsverð því Ása ”Sigga löggu” sem bjó í sama húsi og Hanna og Halli, kom út í eldhúsgluggan, og sagði: ” Var ég ekki búin að vara ykkur við, síðan henti hún út grænni tusku sem var sett við blæðandi andlitið á mér. Síðan hélt öll hersingin með mig grenjandi heim til mömmu. Pabbi var kallaður til og hann þaut með mig á hjólinu til Hallgríms læknis sem saumaði sárið saman. Hann hafði á orði, ”eins gott að þetta lenti ekki á auganu”. Örið ber ég síðan á hægra kinnbeini
Stelpa í næsta nágrenni hét Sigga. Hún var fimm árum eldri en ég og var elst systkina sinna sem voru fimm í allt. Af einhverjum ástæðum var ég stundum að leika við hana, þá mest úti. Í Einarsbúð var hægt að fá bréf með svaladrykk í sem þótti mjög góður bæði beint úr bréfinu og blandað út í vatn. Maja spurði mig hvort ekki væru til tómar flöskur uppi á lofti, því að hægt væri að selja þær fyrir slíku góðgæti. Ég læddist upp á loft og viti menn, þar voru tómar flöskur. Ég komst óséð út með nokkrar flöskur og við flýttum okkur í Einarsbúð með fenginn og fengum svaladrykk fyrir góssið. Ég var auðvitað upp með mér þegar Sigga sagði: ”Inga, þú ert búin að gefa okkur þetta”. Mér fannst þetta góð hugmynd að geta fengið nammi fyrir flöskur og hugði mér gott til glóðarinnar. Einhvern veginn komst mamma á snoður um þetta og gerði mér grein fyrir að þetta væri þjófnaður. Það þóttu mér ekki góðar fréttir og voru ekki farnar fleiri ferðir á loftið í þessum tilgangi.
Sigga og systkini hennar fengu oft að fara í bíó á sunnudögum, en slíkt tíðkaðist ekki mínu heimili. Þar var sunnudagskólinn látinn nægja. Sigga vorkenndi mér að hafa ekki farið í bíó og plataði mig til að koma með í eitt skiptið án þess að eiga pening fyrir miða. Hún sagði: ”Það er svo mikill troðningur við dyrnar, að það tekur enginn eftir því þó einn og einn sé ekki með miða, ég ýti þér bara inn.” Ég lét tilleiðast og fór með niður í Bíóhöll. Var heldur spennt og leið ekki vel yfir þessu. Í dyrunum stóð kona sem var frænka mín, Alda frá Auðnum, sem tók við miðum úr höndum barnaskarans sem tróðst inn um þröngt opið inn í bíósalinn, hún horfði á mig og spurði ekki um miðann, þekkti til mín og lét mig fara inn án miða, hefur eflaust vorkennt mér og vitað hvers eðlis var. Mér leið ekki vel í bíóinu og var hálfflökurt þegar ég kom út. Ég sagði ekki frá þessari bíoferð heima. Vorið sem ég lauk sjö ára bekk var Sigga að ljúka við fullnaðarpróf. Hún kom heim úr útskriftinni sem fór fram í kirkjunni við hátíðlega athöfn. Þegar hún kom heim sagði hún: ” Inga, þú varst hæst í sjö ára bekknum,“ ”Ha”, sagði ég, ”hvernig þá?”. ”Jú, í aðaleinkunn, skólastjórinn las upp alla þá sem voru hæstir í hverjum árgangi” Ég var engu nær, og spurði mömmu nánar út í þetta þegar ég kom heim, hún útskýrði þetta fyrir mér og við fórum yfir einkunnaspjaldið og hún sýndi mér hvað ”aðaleinkunn” þýddi. Næst þegar Bæjarblaðið kom út stóð nafnið mitt þar meðal allra hinna sem voru hæstir í sínum árgöngum með aðaleinkunn – hæst í 7 ára bekk Inga Þóra Geirlaugsdóttir . Þetta var upphaf að miklum metnaði að halda efsta sætinu!!!

Frá því í átta ára bekk vorum við Steinunn Jóhannesdóttir sessunautar og hélst það svo alla okkar skólatíð. Steinunn var með sítt hár sem greitt var í fléttur og mikið öfundaði ég hana af síða hárinu. En ég var auðvitað alltaf stuttklippt á meðan pabbi fékk að ráða. Mátti auðvitað ekki vera honum til skammar. Ég var alltaf aufúsugestur á heimili Steinunnar og var Bía mamma hennar mér einstaklega góð, en þær mamma höfðu unnið saman í kaupfélaginu sem ungar konur, áður en við Steinunn fæddumst, en við fæddumst með fjögurra daga millibili. Hún 24. maí og ég þann 29. maí. Við Steinunn urðum vinkonur fyrir lífstíð. Okkur gekk báðum vel í skóla og deildum oftast efsta sætinu í bekknum, báðar mjög metnaðarfullar, en það hafði aldrei áhrif á vinskap okkar. Það var alltaf gaman að vera í návist Steinunnar. Við deildum áhuga á tónlist, vorum báðar í tónlistarskólanum og spiluðum stundum fjórhent á píanó, vorum í sýningarflokki í leikfimi og dansi á árshátíðum skólanna og sungum saman í skólakórnum.
Afi í Þórsmör Afi Árni og Viktoría voru mér einstaklega góð. Hjá þeim átti ég oft athvarf, enda vorum við, Svanhvít hálfsystir pabba, góðar vinkonur. Hún var einu ári eldri en ég. Afi og Viktoría bjuggu í tvílyftu húsi sem stendur á móti kirkjunni á Akranesi og var húsið kallað Þórsmörk. Á efri hæðinni var íbúðarhúsnæði en á neðri hæðinni rak afi sjoppu; sælgætisbúð.
Það var alltaf sérstök lykt í húsinu. Afi bakaði sjálfur kramarhúsin sem fyrir ísinn og hann lagaði einnig ísinn sjálfur. Var hann með tæki og tól í þvottahúsinu og svo var kælir/frystir í búðinni sjálfri. Þetta gerði hann þangað til fullkomnari ísvélar komu. Ekki ósjaldan var stungið að manni brjóstsykri eða karamellu. Afi stóð oftast vaktina í búðinni sem var opnuð seinni part dags og allar helgar. En seinni árin var hann með aðstoðarstúlkur.
Á efri hæðinni voru fjögur herbergi og eldhús. Eldhúsið var frekar lítið en fyrir framan það innangengt var borðstofa sem mikið var notuð dagsdaglega, þar inni var dívan sem afi hallaði sér oft á. Tvö svefnherbergi voru þar auk stofu, sem oftast var lokuð nema við hátíðleg tækifæri. Svefnherbergið var með glugga á móti kirkjunni. Þar inni var hjónarúm og kojur fyrir dæturnar. Þegar ég fékk að gista svaf ég í neðri koju og er mér minnisstæðir stórir og mjúkir koddar. Út um gluggann sá á kirkjuturninn og í minningunni logaði rautt ljós úr turninum sem mér þótti gott að sofna við á kvöldin. Það var einstaklega ljúft að dvelja hjá afa og Viktoríu. Afi hafði verkstæði með ýmsum tækjum og tólum í litlu húsi úti á lóðinni, þar var hann oft að smíða eða gera við eitthvað. Hann var einstaklega verklaginn og var með meistarbréf sem rakari, málari og bakari. Hann var einstakt snyrtimenni og alltaf mjög vel til fara. Þegar afi tók sér miðdegislúrinn mátti oft heyra söng úr herberginu, hann söng upp úr svefni og mátti þá oft heyra” Þú Guð sem stýrir stjarnaher og stjórnar veröldinni”.
Smábarnaskóli Jónínu Hún hélt fast í hönd föður síns litla fimm ára stúlkan sem átti að fá að byrja að læra að lesa í smábarnaskóla Jónínu sem var á þeim tíma til húsa í einni stofu Barnaskóla Akraness. Klædd í heimasaumuð föt og með splunku nýja græna plasttösku með mynd af Mjallhvíti og dvergunum sjö utan á. Já spennan var í hámarki og ég heyrði hrópin í stórum strákum sem kölluðu ”nei, nei kemur ekki rakarinn með stelpuna sína”. Þetta var mín fyrsta upplifun af skóla, þarna lærði ég að lesa og draga til stafs, teikna hús og fann út að blandaði maður rauðum og hvítum lit saman kom út bleikur. Það þótti mjög flott.
Svanhvít föðursystir min sem var ári eldri en ég og Inga Jóna frænka mín voru báðar í tímakennslu hjá Jónínu og suðaði ég um að fá að fara líka og fékk svo að fara eftir árarmót. Tók ég fljótt við mér og var orðin fluglæs um vorið. Þegar maður hafði náð 50 atkvæðum var klappað fyrir manni þar sem maður stóð við hliðina á kennaraborðinu. Þegar 100 atkvæðum var náð var maður settur upp á stól og klappað, við 150 atkvæði var maður settur upp á kennaraborðið og við 200 atkvæði var manni snarað upp á skáp sem stóð í einu horni stofunnar. Þetta var mér mikil lífsreynsla þar sem ég hef alla tíð verið afar lofthrædd. Þessari stundu gleymi ég seint þar sem ég skalf af hræðslu og allir klöppuðu fyrir mér.
Jólin Fyrstu jólin sem ég man eftir voru þegar Hörður bróðir og Ernst Backman voru skírðir heima í stofu á Háholtinu. Fyrir jólin var mikið að gera á heimilinu enda mamma upptekin við að sauma nýjar flíkur á okkur öll auk þess að baka margar sortir af smákökum. Mamma eignaðist forláta Kenwood hrærivél og mér finnst að hún hafi verið keypt þegar Hörður fæddist. Mamma var einstaklega laginn og smekkleg við saumaskapinn og fengum við ný föt nánast yst sem innst fyrir jólin. Heimasaumuð náttföt voru þar engin undantekning.
Á Þorláksmessu var jólatréð tekið fram en það var gerfitré sem pabbi hafði orðið sér út um. Undir tréð hafði hann smíðað stóran ferhyrndan fót sem mjókkaði upp og var síðan klæddur með silfurpappír. – Ljósaséría sem samanstóð af bjöllum í ýmsum litum var sett á tréð. Á hverri bjöllu var álímd mynd með jólalegum táknum og jólasveinum. Tréð var einnig skreytt með jólakúlum í ýmsum litum og fannst mér þær ævintýralega fallegar þar sem stirndi á þær í ljómanum frá seríunni, efst á trénu var glitrandi stjarna. Gat ég setið tímunum saman og horft á þessar gersemar. Pabbi lumaði á fallegum pappírsmúsastigum og skrauti sem hengt var í gardínurnar í stofunni. Það þurfti ekki mikið til að gleðja litla einstaklinga.
Um það bil viku fyrir jólin fjölgaði á hæðinni hjá okkur. Ingibjörg systir ömmu kom sunnan úr Reykjavík eins lengi og ég man, hver jól. Hún svaf í stofunni hjá ömmu og afa. Ingibjörg var afar falleg kona með eindæmum hreinleg og með hvíta fallega húð og þykkar fléttur. Hún hafði aldrei gifst. Hún vann við að þjóna eldri manni í Reykjavík og gera smáviðvik í húsi hans og fékk að launum herbergi undir súð í sama húsi. Hún kom ávallt með hálfa tösku af vettlingum og sokkum sem við börnin fengum frá henni. Annað eins handbragð var fáséð. Ferðataska Ingibjargar var hulin grænu klæði sem hún hafði heklað utanum töskuna til að hlífa henni. Aldrei sást blettur eða hrukka á fatnaði hennar og voru hendurnar hvítar og fallegar enda þvoði hún sér óvenjulengi. Hún var hláturmild eins og amma og skemmtu þær systur sér vel. Ingibjörg átti einstaklega fallegan upphlut sem hún notaði mikið. Svuntur og blússur voru að sjálfsögðu saumaðar í höndunum af henni sjálfri.
Ingibjörg hafði einn ókost að mati okkar barnanna. Hún var svo lengi að borða. Allt sem hún gerði var gert af kostgæfni og hún tók sér langan tíma í að tyggja matinn og þurrkaði með sérvéttu munninn oft og títt undir borðum. Þetta fannst okkur alveg ótrúlega leiðinlegt á aðfangadagskvöld. En þá borðuðum við öll saman í holinu á Háholtinu. Ekki mátti fara frá borðinu fyrr en allir voru búnir að borða. Við vorum að vonum mjög óþreyjufull og vorum löngu búin að borða þegar helmingurinn var eftir á diski hennar. Þetta voru langar mínútur. Svo var opnað inn í stofu og við settumst við jólatréð og fengum jólapakka.
Mikið var að gera á rakarastofunni hjá pabba, þar sem allir þurftu að fá jólaklippingu. Ég var send með kaffi og smakk af jólabakstrinum til pabba. Mamma þvoði allt sem tilheyrði rakarastofunni og og fékk ég oft það hlutverk að strauja servíettur sem notaðar voru til að þurrka og þerra. Oft var ég líka send með slíka pakka til pabba. Ég staldraði stundum við og horfði á pabba klippa. – Alveg fannst mér með ólíkindum, hvað sumir krakkar gátu grenjað við að láta klippa sig. Pabbi þurfti oft að taka á þolinmæðinni og oft heyrði ég hann segja ”vertu kyrr”. Í þá daga voru engar dúkkur eða dýr sem léku leikrit á meðan klipping fór fram eða verðlaun fyrir góða hegðun í rakarastólum. Þarna gilti bar aginn – Börn voru ekki verðlaunuð fyrir góða hegðun!!!!
Það sem einkenndi dagana í desember var eplalyktin sem kom í búðirnar. Epli voru ekki hversdagsmatur fyrr en ég komst á unglingsárin. Eplin komu í trékössum og hvar hvert epli vafið inn í mjúkan pappír sem þótti afbragðspappír til nota á salernum og var mun þægilegri en dagblöð sem stundum voru notuð til að pússa á sér afturendann.
Mamma sat við eins og fram hefur komið og saumaði og prjónaði. Fyrir ein jólin prjónaði hún forláta útprjónaða vettlinga á pabba. Kári spurði hver ætti að fá vettlingana og hún sagði honum það og einnig að við mættum alls ekki segja pabba frá þessu. Þetta var leyndarmálið okkar. Þegar pabbi kom heim um kvöldið tók Kári á móti honum og sagði: ”pabbi þú færð ekki að sjá vettlingana sem mamma ætlar að gefa þér í jólagjöf”. Mamma og pabbi hlógu lengi að þessu. Fyrir önnur jól saumaði mamma hvítar svuntur með blúndumilliverki, sem hún seldi í Einarsbúð. Fyrir ágóðann keypti hún kuldaúlpu með gæruskinni á pabba sem hann fékk náttúrulega í jólagjöf.
Mamma hafði mjög góða söngrödd eins og reyndar allar systurnar. Hún og Hanna sungu í kirkjukórnum. Um jólin söng pabbi oft með líka. Það var þröngt á litla kórloftinu þar sem Bjarni á Austurvöllum þandi orgelið. Við börnin komum okkur fyrir nálægt kórloftinu og konurnar dáðust að heimasaumuðum fötum okkar barnanna hvor hjá annarri. Kirkjan var þéttsetin og allir gluggar sveittir. Þetta setti hátíðleikann á jólin og ómissandi þáttur í jólahaldinu. ”Heims um ból” fylgdi okkur út í jólanóttina og eftirvæntingin leyndi sér ekki þegar við gengum heim , oftast undir stjörnubjörtum himni, þar sem hangikjötið og ávaxtafromas beið okkar ásamt malti og appelsíni.
Litlu-jólin í skólanum Í skólanum voru jólin einnig undirbúin. ”Litlu jólin” voru mikið tilhlökkunarefni. Til siðs var að senda jólakort til allra bekkjarfélaga og einnig í aðra bekki. Jólakortin voru heimatilbúin. Í bókabúðinni var nóg að gera. Þar var keyptur hvítur pappír og glansmyndir. Flottastar voru glansmyndir með glimmeri. Einnig var hægt að kaupa glimmer í litlum pokum. – Dagarnir fyrir jól einkenndust af jólakortagerð á flestum heimilum þar sem skólabörn bjuggu. Fyrstu jólin mín í skóla settist pabbi með mér og hjálpaði mér með jólakortin. Þau voru ”snilld” hann átti oddaskæri sem klipptu siksakk..
Kortin mín voru flest tvöföld og stundum var gluggi á fremri hliðinni og inni í kortinu var glansmyndin. Ég horfði með aðdáun á pabba þar sem hann töfraði fram hvert kortið á fætur öðru með skrautrituðu ”Gleðileg Jól!” – Já, það voru ekki allir sem áttu svona handlaginn pabba. Ég valdi glansmyndirnar og sagði hver átti að fá hvað. Flottustu myndirnar fengu þeir sem mér líkaði best við. Tveir strákar sem mér leist best á í bekknum fengu stærstu myndirnar. Þetta þótti pabba fyndið og hló dátt.
Í skólanum var einn dagur tekinn í undirbúning fyrir aðalhátíðina litlu jólin. Nemendur skreyttu stofurnar með músastigum og stjörnum. Þau sem voru dugleg að teikna voru valin til að skreyta töflurnar með litkrít til hátíðarbrigða. Hluti bekkjarins var að flokka jólapóstinn og nokkrir voru settir í að hlaupa með utanbekkjarpóstinn í aðrar stofur. Einhver bjó svo vel að geta komið með jólatré að heiman með seríu á og við bjuggum til jólapoka til að skreyta það með. Svo rann dagurinn upp, fyrstu ”litlu jólin”, þvílík spenna. Allir voru í sínu fínasta pússi. Ég fór í fallegan kjól sem mamma hafði saumað og nýja kápu og hatt sem hún hafði einnig saumað. Pabbi fór með mér til Ella á Staðarfelli sem rak skóbúð og ég fékk svarta lakkskó.
Fyrst fórum við í kennslustofuna okkar og síðan gengum við í fallegri röð niður í ”salinn” sem samanstóð af tveimur kennslustofum sem hægt var að opna á milli. Á miðju gólfi stóð stórt ilmandi grenitré skreytt með ljósum og ýmsu jólaskrauti. – Þetta var sjáldgæf sjón. Á Akranesi var lítið um tré. Við fáein hús hafði verið plantað reyniviði sem átti oft erfitt uppdráttar. – Þannig að alvörujólatré á litlu jólunum voru eiginlega fyrstu kynni mín af trjágróðri.
Fyrst var einhver dagskrá tengd jólunum og síðan var gengið í kringum jólatré með öllum jólasöngvum sem við kunnum og allir sungu með af hjartans list. Í lokin fengu öll börnin epli, sem skólastjórinn og kennararnir deildu út. Eftir það var aftur farið í stofurnar og þar fengu allir ”jólapóstinn” sinn. Í lokin afhenti kennarinn einkunnaspjöld með árangri miðsvetrarprófa.
Heiðarbrautin Þegar ég var á níunda ári fluttum við að Heiðarbraut 7. Pabbi fékk lóð í landi Vegamóta þar sem hann byggði tvílyft hús. Upphaflega ætlaði hann að hafa rakarastofu á neðri hæðinni þar sem framtíðarskipulag bæjarins var á þá lund að opna átti Heiðarbrautina inn á Skólabraut, sem gerði það að verkum að rakarastofan yrði á vel staðsett hvað umferð varðaði. En það kom aldrei til framkvæmda, skipulagið breyttist og þar með er Heiðarbrautin enn lokuð í annan endann. – Við þetta fannst pabba ekki árennilegt að flytja rakarastofuna. Þess vegna stóð hluti neðri hæðarinnar óinnréttaður árum saman. Pabbi vann sleitulaust að byggingunni í öllum frítímum sínum og ma. keypti hann trukk í félagi við annan og sóttu þeir bæði sand og möl í steypuna. Þegar steypt var dreif að vini og ættingja til að aðstoða. Þegar við fluttum inn var efri hæðin að mestu tilbúin að örðu leyti en því að allar hurðir vantaði. Mamma saumaði tjöld fyrir hurðagötin og gömul hurð var sett fyrir klósettið. Gólfdúkar voru á gólfum en stórt teppi var yfir stofugólfinu. Mamma óf teppi á borðstofugólfið og í holinu var fallegt munstrað teppi sem hún einnig hafði ofið. Í Eldhúsinu var hvítmáluð innrétting, veggirnir voru málaðir gulir og loftið var eldrautt. Gólfið var með rauðum og hvítum korkflísum. Nú vorum við komin í miðju bæjarins og stutt var fyrir pabba að fara í vinnuna. Fljótlega voru komnar hurðir í öll hurðargöt og þegar Halli, föðurbróðir okkar, flutti til okkar hjálpuðust þeir bræður að við að innrétta fleiri herbergi á neðri hæðinni og fyrstu árin voru eitt til tvö herbergi á neðri hæðinni leigð út, við mismunandi ánægju okkar systkina.
Jóa frænka og Vegamót
Á Vegamótum bjuggu Þórður og Jóa frænka, sem var hálfsystir mömmu, ásamt sonum sínum. Húsin voru tvö fest saman. Annars vegar bárujárnsklætt hús sem foreldrar Þórðar bjuggu í og hins vegar nýrra hús sem byggt var fast við hitt. Húsið stendur við Skólabraut 35. Guðmundur og Lína foreldrar Þórðar voru orðin fullorðin. Lína lagði mikla rækt við garðinn sem var bak við húsið og ræktaði þar alls kyns blóm og grænmeti, auk kartaflna. Guðmundur átti lítinn bát sem hann hafði inni í Kalmansvík og þaðan fór hann á rauðmaga á vorin. Annars stóð hann mjög oft við hliðið inn í garðinn þeirra og fylgdist með mannlífinu. Guðmundur var lítill vexti og samanrekinn, og vantaði í hann nokkrar tennur. Hann yrti aldrei á okkur börnin og stóð mér hálfgerður stuggur af honum. Lína var hins vegar mjög reffileg kona og talaði mjög hátt og ég man vel eftir hlátrinum í henni. Trúlega hefur hún verið farin að tapa heyrn. Ég hitti hana oft í heimsóknum hjá Jóu frænku. Þórður var sjómaður og Jóa frænka því oft ein, sérstaklega á sumrin þegar síldin var fyrir norðan land.
Jóa frænka sem hét fullu nafni Jófríður María var í miklu uppáhaldi hjá okkur systkinum. Hún var með eindæmum snyrtileg og alltaf vel tilhöfð. Hún var húsmóðir í hæsta gæðaflokki. Hún sá um heimilið af einstakri natni. Alltaf var til eitthvað heimabakað og nánast alltaf til pönnukökur. Smákökurnar sem hún bakaði fyrir jólin voru í sérflokki – alveg upp á millimetra hver kaka, fallega raðað í box og geymt í geymslu á neðri hæðinni. Synirnir voru þrír. Þorbergur/Beggi, Jóhannes Kristján- alltaf kallaður Kiddi og svo Guðlaugur Þór/ Gulli, sem var jafnaldri minn.
Beggi bjó hjá ömmu sinni og afa í sambyggðu húsi. Eftir því sem mér var sagt þá fékk hann að vera hjá ömmu sinni þegar Jóa lagðist á sæng til að eiga Kidda – gamla konan skilaði honum aldrei aftur. Jóa hafði mikla samúð með henni þar sem hún hafði misst þrjú börn þar af tvo unga menn í sjóinn. Þannig að Beggi varð henni mikil lífsfylling. Ég heyrði Jóu aldrei tala um þetta enda var hún með eindæmum orðvör kona og bar tilfinningar sínar ekki á torg. Ég man ekki eftir að hún hallmælti nokkrum manni og var hún einstaklega jákvæð þrátt fyrir oft á tíðum mikið mótlæti í lífinu. ” Ef Guð lofar” var oft skeytt aftan við umræður sem snerust um framtíðina eða einhver áform.
Þórður maður Jóu var einstaklega myndarlegur í fasi og ríkti mikil kærleikur með þeim hjónum. Hann sá vel fyrir heimili sínu og sá um að þar vantaði ekkert. Ég var mikið inni á heimili þeirra og vorum við Gulli mjög nánir vinir. Þar var mikið spilað og telft. Gulli var oft veikur hann var með ljóta hálskirtla og fékk oft svæsnar hálsbólgur. Var ég þá oft fengin til að stytta honum stundir. Þar komst ég fyrst í kynni við legokubba og Andrésblöð.
Þórður lést fyrir aldur fram aðeins 45 ára. Það var mikið áfall fyrir fjölskylduna. Hann dó 6. Maí 1962 viku áður en ferma átti Gulla. Hann varð bráðkvaddur úti á sjó. Eitt það síðasta sem Þórður gerði áður en hann dó var að fara til Reykjavíkur og kaupa fermingargjöfina handa Gulla, en það var reiðhjól af flottustu gerð. Það kom í hlut pabba að tilkynna andlát Þórðar þar sem ekki náðist í sóknarprestinn. Pabbi sagði síðar að það hafi verið einhver þyngstu spor sem hann hafi gengið, að tilkynna gömlu hjónunum um andlát eina barnsins sem þau áttu eftir. Mamma og Jóa voru mjög nánar systur og var samgangur mikill á milli heimilanna, sérstaklega eftir að við fluttum á Heiðarbrautina.
Tónlistarlífið
Lífið breyttist talsvert eftir að við fluttum á Heiðarbrautina. Miklu rýmra var um okkur systkinin og gestagangur varð meiri, þar sem mamma og pabbi voru ein húsráðendur. Pabbi var eins og áður hefur komið fram stjórnandi karlakórsins og var því ekki óalgengt að æfingar, sérstaklega þeirra sem áttu að syngja einsöng, færu fram í stofunni hjá okkur. Pabbi var einstaklega músikalskur og hafði unun af að hlusta á tónlist og að spila sjálfur. Eitt af því fyrsta sem þau mamma og hann spöruðu fyrir var píanó. Hann settist oft við píanóið í sínum frítíma. Þegar hann var um tvítugt hóf hann nám í Tónlistararskólanum í Reykjavík. Hann leigði sér herbergi og fékk að æfa sig í KFUM húsinu. Þetta var dýrmætt ár fyrir hann og þar lærði hann ótrúlega mikið á einu ári og lærði undirstöðuatriði í að stjórna kór, sem átti eftir að koma sér vel fyrir hann seinna í lífinu. Pabbi kynntist ýmsum framámönnum í tónlistarlífinu og var nemandi Rögnvalds Sigurjónssonar í píanóleik. Hann var einn af stofnendum tónlistarfélags Akraness og var formaður um árabil. Tónlistarfélagið stóð fyrir ýmiss konar tónleikum auk þess sem það stóð að stofnun tónlistarskóla. Kennarar voru ráðnir að skólanum og var Anna Magnúsdóttir ráðin skólastjóri , en hún var gift Njáli Guðmundssyni sem var skólastjóri barnaskólans. Auk hennar voru þær Sigríður Auðuns og Fríða Lárusdóttir kennarar við skólann. Byrjað var að kenna í gamla stúkuhúsinu en síðar flutti tónlistarskólinn í húsnæði í kjallara húss Önnu og Njáls við Vogabraut
Pabbi sá til þess að ég var innrituð í tónlistarskólann 8 ára gömul. Anna Magnúsdóttir var fyrsti kennari minn. Oftar en ekki var ég í tímum heima hjá henni. Hún var einstaklega elskuleg við mig og er mér minnisstæð lyktin í íbúðinni, hún hafði oft kveikt á reykelsi. Tónfræðitímarnir voru líka í herbergi í nýja húsinu hennar og vorum við 6-7 stelpur saman í tímum. Mér fannst tónfræðin ekki skemmtileg og það sem ég lærði var mest utanaðbókarlærdómur. Anna stóð líka fyrir músikfundum með sínum nemendum og þá spiluðu allir. Mér fór vel fram og á öðru ári mínu í tólistarnáminu kom ég fram í árshátíð barnaskólans í Bíóhöllinni. Árshátíðin var árlegur viðburður með fjórum sýningum þar sem fram fóru hin margvíslegustu skemmtiatriði, leikrit bæði stutt og löng, tónlistaratriði, kórsöngur, leikfimisýningar og dansatriði. Þessar skemmtanir voru vel sóttar og flestir bæjarbúar létu sig ekki vanta að horfa á afkvæmin koma fram og sýna hvað í þeim bjó.
Það þótti mikill heiður að vera valinn í hin ýmsu skemmtiatriði árshátíðarinnar. Þarna fékk maður æfingu í koma fram bæði í tónlist og að sýna leikfimi. Kennarar skólans höfðu veg og vanda að æfingum og lögðu á sig ótrúlega vinnu bæði við æfingar og að sauma búninga, sem einnig kom í hlut mæðra. Ljósmyndari bæjarins var fenginn til að taka myndir af öllum atriðum og voru þær hengdar upp með auglýsingum í flestum búðum bæjarins. Efast ég um að kennararnir hafi fengið meira í hlut sinn fyrir þessa vinnu en ánægjuna og erfiðið. Þessar árshátíðir bæði hjá Barnaskólanum og Gagnfræðaskólanum voru mikil lyftistöng í bæjarlífinu, a.m.k. hvað okkur börnin varðaði. Þetta er það skemmtilegasta og eftirminnilegasta úr allri skólagöngunni.

Lífið baksviðs í Bíóhöllinni var ævintýri. Ég man enn eftir lyktinni af sminkinu og stemningunni hvort allt gengi upp. Allt fór fram samkvæmt ákveðnum reglum og passað upp á að allir væru mættir á réttum tíma að tjaldabaki. Æfingar fyrir leikfimisýningar fóru auðvitað fram í gamla íþróttahúsinu og fóru fram eftir að skólatíma lauk. Æfingarnar og sýningarnar í kjölfarið voru mínar sælustu stundir. Ég var liðtæk í leikfimi og var valin til að sýna bæði leikfimi og dans auk píanóleiks og söngs.
Tómstundir og félagslíf. Við systkinin lifðum og hrærðumst í þeim íþróttum sem stóðu til boða á Skaganum. Skagamenn voru góðir í fótbolta á 6. tug aldarinnar og voru landsfrægir fyrir sitt gullaldarlið. Þetta hleypti lífi í bæjarlífið og má segja að á öllum auðum blettum á Skaga hafi strákar verið í fótbolta. Bræðurnir æfðu fótbolta og komust í lið sem öttu kappi við önnur lið. Stelpur voru því miður ekki gjaldgengar í fótbolta á þessum tíma. Pabbi hafði mikinn knattspyrnuáhuga og lét engan leik fram hjá sér fara. Hann skrifaði auglýsingar fyrir ÍA og fékk í staðinn að fljóta með þeim á leiki sem spilaðir voru í Reykjavík.

Kári stóð í marki og náði að verða Íslandsmeistari í 3. flokki. Er hér annar frá vinstri á myndinni. Og Gulli frændi er 5. frá vinstri.Kári var mjög góður íþróttamaður. Hann tók þátt í frjálsum íþróttum, fótbolta og sundi. Í sundinu náði hann að æfa með landsliðinu.
Ég reyndi fyrir mér í sundi, handbolta og frjálsum íþróttum. Frægustu afrek mín í sundinu voru í tólf ára bekk, en kjörin voru sunddrottning og sundkóngur úr þeim árgangi, síðasta bekk barnaskólans. Fékk ég drottningartitilinn og Gulli frændi á Vegamótum varð sundkóngur.
Sundlaugin og íþróttahúsið voru við bæjardyrnar hjá okkur og vorum við tíðir gestir þar. Ég stundaði sundæfingar af kappi til 15 ára aldurs og tók þátt í bæjarkeppnum við Hafnarfjörð og Keflavík. Þegar ég var heima á sumrin æfði ég frjálsar íþróttir en þar segir lítið af afrekum mínum. Handbolta æfði ég um tíma og hafði mikið gaman af, en ekki hafði verið mikil hefði fyrir þeirri íþrótt á Skaganum, en ég man eftir að við fórum alla vega einu sinni til Reykjavíkur og kepptum við Val og skíttöpuðum, eins og búast mátti við.
Kristilega starfið Pabbi og mamma tóku mikinn þátt í kristilegu barna og unglingastarfi. Pabbi spilaði í sunnudagaskólanum sem hafði bækistöðavar í húsinu Frón, sem Kristrún Ólafsdóttir átti. Mamma var með á mánudagskvöldum, en þá voru svokallaðir saumafundir og fylgdi ég henni þangað þegar ég hafði aldur til. Mamma var líka með í undirbúningi basars sem haldinn var fyrir hver jól til ágóða fyrir starfið. Þar kom einnig saman hópur kvenna sem sat við hannyrðir. Fyrir bolludaginn voru útbúnir og vafðir bolluvendir til ágóða fyrir Ölver. Kristrún hafði veg og vanda af þessu starfi og hafði einnig komist yfir að kaupa hús í Ölver og hóf sumarbúðastarf þar. Mamma var hennar stoð og stytta bæði hvað varðaði innritun í sumarbúðirnar og einnig að vinna í Ölver þegar starfskrafta vantaði. Við systkinin vorum þá tekin með og þegar ég varð 13 ára var ég orðin aðstoðarstúlka bæði í eldhúsinu og úti að leika við krakkana. En ég hélt nú bara út eitt sumar.
Á þessum tíma var ekkert rafmagn í Ölver. Maturinn eldaður á stórri olíuvél og klósett í kjallaranum gengið inn að utan. Þyrfti maður að létta á sér á kvöldin eða nóttunni var það gert í stóra fötu, sem gekk undir nafninu spiladósin, og var á gólfinu. En allir sváfu í einum svefnskála. Að mestu leyti var um að ræða flokka fyrir stelpur, en venjulega var einn strákaflokkur á sumri. Fyrstu árin kom mjólkin frá nágrannabæ, sem hét Narfastaðir og var flutt á hestakerru. Hún var geymd úti og var því ekki ísköld. Seinna kom mjólkurbíll frá Akranesi og kom þá einnig með ýmsan annan varning í matinn. – Allt var bakað á staðnum, nema mjólkurkex og kringlur. Er mér það hulin ráðgáta hvernig Kristrún fór að þessu með eina aðstoðarstúlku og einn ungling sér til aðstoðar. Kristrún var með hænur og fékk egg frá þeim daglega. Hún ræktaði karftölfur í Ölver, sem hún geymdi á góðum stað fram á sumarið. Vatnið kom úr lind undir Hafnarfjalli. Fyrstu árin voru eins og fram kemur mjög frumstæðar aðstæður, en allt blessaðist þetta einhvern veginn. En með mikilli atorkusemi og hjálp góðra manna og kvenna hefur starfið vaxið og dafnað og eru ytri aðstæður orðnar til fyrirmyndar.
Eftir að við fluttum á Heiðarbrautina var oft mikill gestagangur ekki síst um vetrartímann. Menn sem komu úr Reykjavík til að halda Kristniboðssamkomur gistu gjarnan hjá okkur. Var þá oft kátt í höllinni. Eftir samkomurnar var oft komið heim til okkar og söngur æfður og settir saman dúettar og kvartettar. Mamma og pabbi sungu oft dúett saman, en þau höfðu bæði mjög góðar raddir. Mamma reiddi þá fram alls konar bakkelsi. Ég var fljót að láta mig hverfa þegar gesti bar að garði, því nær undantekningalaust var ég beðin um að spila fyrir gestina, sem var ekki í miklu uppáhaldi hjá mér.
Það var ekki bara tekið út með sitjandi sældinni að vera hluti að þeim sem stóðu fyrir kristilegu starfi á Skaganum. Þótt borin væri mikil virðing fyrir störfum mömmu og pabba og þau mikilsvirt í bæjarfélaginu, fannst öllum ekki jafnfínt að tilheyra þessum hópi. Ég man eftir að hafa fengið óþægilegar spurningar og háðsglósur frá krökkum sem fannst hallærislegt að fara í Frón. En ég lærði fljótlega að kæra mig kollótta um slíkar athugasemdir, enda var ég mjög félagslynd og hafði um nóg að hugsa. Leiðinlegast fannst mér að fá ekki að fara í dansskóla, eins og flestir bekkjarfélaga minna. Mömmu og pabba fannst mikilvægara að stunda tónlist og svo átti dans ekki upp á pallborðið hjá trúuðu fólki á þessum tíma.
Kennararnir í Barnaskólanum Fyrsti kennari minn í barnaskóla var Ólína Jónsdóttir. Mér fannst hún afskaplega falleg kona og var hún okkur mjög góð. Hún hefur trúlega verið nýútskrifaður kennari. Ólína gekk með barn þennan vetur. Einhverju sinni var ég á leið í skólann og fann þá fyrir flökurleika, en lét það nú ekki á mig fá, því ég ætlaði ekki að missa af skólanum. Þegar líða tók á fyrstu kennslustundina kastaði ég upp á gólfið. Ekki hafði ég haft rænu á að segja að mér liði ekki vel. En Ólína tók þessu með jafnaðargeði og sótti vatn í fötu og gólftusku og þreif gólfið. Mér fannst þetta auðvitað mjög leitt, og var send heim í kjölfarið og sagði mömmu hvers kyns var. ” Hvað ertu að segja barn, og þreif Ólína æluna upp svona á sig komin” – þannig að hún fékk alla samúðina.
Ekki man ég eftir neinu öðru markverðu í skólanum þetta árið. Næstu tvö árin kenndi Sigrún Gunnlaugsdóttir okkur. Hún var líka mjög falleg kona með mjög ljóst liðað hár og var gift öðrum kennara í skólanum. Hún var frekar ströng að okkar mati, en góður kennari. Við Steinunn sátum í miðröðinni á fremsta bekk. Einhverju sinni var penna danglað í höfuðið á mér, þá ofbauð Sigrúnu áreiðanlega blaðrið í okkur Steinunni. Þetta varð mér góð lexía.
Í tíu ára bekk Fengum við nýjan kennara, sem hét Auður Guðjónsdóttir. Auður var einstaklega skemmtilegur kennari. Hún var mjög kát og tók þátt í glensi okkar nemendanna. Auður kenndi okkur mörg ný lög og eitt ma. á ensku – ” My bonnie went over the ocean” sem við sungum af hjartans list og annað erindið söng ég svona ”las nædasa lei on mæ pillo” sem var auðvitað – Last night as I lay on my pillow”. Auður las fyrir okkur í nestistímanum ”Maður og kona” og gerði það með tilþrifum. Svo varð hún veik og þurfti að fara á spítala. Þá kom forfallakennari í hennar stað og náði að drepa niður áhugann á ” Manni og konu” þar sem hún las allt í belg og biðu. Þegar Auður lá á spítalanum vildum við nemendur hennar auðvitað færa henni eitthvað. En hvað átti það að vera? – endirinn varð sá að við færðum henni appelsínur og epli. Allir í bekknum komu með annað hvort epli eða appelsínu að heiman og þessu var svo safnað saman í poka og einhverjir fulltrúar úr bekknum fóru með pokann til hennar.
Hún hafði skellt upp úr þegar hún tók við þessari gjöf að sögn viðstaddra. Þrjátíu ávextir í poka handa sjúkri manneskju. – En viljinn var alla vega góður. Auður gaf okkur talsvert frelsi og var oft kátt á hjalla í tímum hjá henni. Hún var mjög flink að teikna og voru ófáar minningarbækur sem rötuðu í hendur hennar og komu til baka með fallegum teikningum og hvatningarorðum. Auður kenndi bara einn vetur á Akranesi. Seinna varð hún prestssfrú á Siglufirði. Hún var eins og fram hefur komið mjög skemmtileg og sögur fara af því á Siglufirði að eldra fólki fannst hún einum of frjálsleg. Hún var að leik með börnum sínum í garðinum og „stóð á haus“, þetta var ekki prestfrúm sæmandi!!!!

!
Næstu tvo vetur fengum við Kennara sem hét Guðjón Hallgrímsson. Hann var þekktur fyrir að vera mjög strangur kennari og komst maður ekki upp með neitt múður hjá honum – það mátti heyra saumnál detta í tímum hjá honum. Hann tók okkur öll í gegn varðandi skriftina og lagði mikið á sig til þess að vanda hana og endaði auðvitað með því að flestir í bekknum fengu mjög fallega rithönd. Hann hafði mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna og ætlaði sér stóra hluti með bekkinn okkar, sem honum tókst líka, því að í lok tólf ára bekkjar var helmingurinn af bekknum með yfir 9 í meðaleinkunn sem var einsdæmi á Skaga. – En það gekk ekki þrautalaust fyrir sig, einhvern tíma átti að fara með 12 ára árganginn í byggðasafnið og hlökkuðum við auðvitað til þess. En sama daginn skilaði hann okkur stafsetningaverkefni sem honum fannst fyrir neðan allar hellur, villurnar voru of margar og ætlaði hann að hafa af okkur ferðina í byggðasafnið. En einhver samningaleið var farin því að í byggðasafnið fórum við.
Kostgangarar Ekki löngu eftir að við fluttum á Heiðarbrautina flutti Halli bróðir pabba til okkar. Hann hafði fengið heiftarlega heilahimnubólgu og lá einn í herbergi sem hann leigði úti í bæ. Pabba fannst þetta ótækt og tók hann til okkar. Hann fékk herbergið sem ég svaf í svo við systkinin sváfum öll inni í svefnherbergi hjá þeim. Þess vegna var hafist handa um að innrétta herbergin á neðri hæðinni og hjálpuðust þeir bræður að við það. Og Halli fluttist á neðri hæðina. Hann var í fullu fæði og þjónustu hjá mömmu þangað til hann fór að búa með Sillu trúlega tveimur árum seinna. Það var alltaf líf og fjör í kringum Halla og var hann einstaklega ljúfur og góður við okkur systkinin. Sérstöku ástfóstri tók hann við Þuru og gaf henni tvíhjól í afmælisgjöf þegar hún varð þriggja ára. Halli keypti sér fljótlega bíl, Moskowitch, og fengum við að njóta þess stöku sinnum að ferðast með honum. Hann keypti Þórsmörkina af afa, þegar þau Viktoría fluttu til Reykjavíkur, og hóf hann að reka sjoppuna á neðri hæðinni meðfram smíðavinnunni, en hann var útlærður smiður.
Einu ári eftir að Halli flutti til okkar kom vinur hans, Helgi Andrésson, einnig í húsið og voru því tveir leigjendur um tíma. Helgi borðaði hjá okkur þegar hann var í landi, en hann var sjómaður. Helgi var einstaklega myndarlegur maður, eins og reyndar Halli líka og voru þeir mikil kvennagull. Helgi gekk undir nafninu ”Helgi kroppur”. Þeir voru góð viðbót við karlakórinn, Helgi var djúpur bassi og Halli var tenór. Þegar þeir fluttu til eiginkvenna sinna losnuðu herbergin á neðri hæðinni og pabbi lauk við að innrétta hin tvö herbergin og innréttaði einnig baðherbergi á neðri hæðinni. Þá voru tvö herbergi leigð út og við krakkarnir vorum í tveimur. Hörður og Kári deildu herbergi. Mamma fór að vinna í vefnaðaravörudeild Kaupfélagsins, hálfan daginn, þegar ég var 11 ára. Silla kona Halla gekk þá með elsta son þeirra tók að sér að gæta Þuru á meðan mamma var í vinnunni.
Helgi var ættaður af Vestfjörðum og bjó móðir hans í Meðaldal í Dýrafirði. Vorið sem Kári varð 8 ára tók hann Kára með sér í sveitina og var hann þar meginhluta sumarsins. Þetta sama sumar var ég barnapía í Vík í Mýrdal og passaði Adda Kidda sem var í kerru þá.
Þegar ég hafði verið í nokkra daga þar kom frænka Jónasar sem var jafngömul mér og átti líka að dvelja hjá þeim. Mér fannst mjög skemmtilegt að leika við hana og kom okkur vel saman. Við sváfum á stórum dívani á efri hæð hússins. En hún dvaldi aðeins eina eða tvær vikur þar sem hún fékk svo mikla heimþrá að foreldrarnir komu og sóttu hana. Þetta sumar var mjög mikill gestagangur hjá Öddu og Jónasi. Man ég eftir að biskup kom í visitasíu og var hann látinn sofa í hjónarúminu ásamt syni sínum og Adda og Jónas hreiðruðu um sig í næsta herbergi ásamt strákunum. Ekki veit ég hversu mikið gagn var af mér þarna. Ég hef eflaust haft ofan af fyrir strákunum og svo fór ég í búðir. Man ég einnig eftir þvottadögunum, þvottahúsið var allt í móðu, þar sem þvottur var soðinn í sérstökum suðupotti og reynt var að nota daga sem ekki rigndi til að þurrka þvottinn. En þetta sumar var sérstaklega votviðrasamt.
Sumarið 1958 Kári kunni vel við sig í sveitinni í Dýrafirði og fannst mér þetta ævintýri líkast og vildi ólm komast í alvörusveit líka. Húsmóðir Kára var öllum hnútum kunnug í Dýrafirðinum og útvegaði hún mér sveitaplássi hjá ungum hjónum, sem áttu fjögur börn, á bænum Arnarnúpi í Keldudal. Ég sem þá var 10 ára gömul átti að gæta barnanna. Mér fannst þetta ótrúlega spennandi og hlakkaði mikið til. Mamma undirbjó för mína og saumaði alls kyns föt á mig fyrir sveitavistina.
Svo rann dagurinn upp. Ég fór með katalínuflugbát, sem svo var kallaður og var þetta mín fyrsta flugferð. Ég var svo illa upplýst að ég skildi ekki hvað flugbátur þýddi og var því skelfingu lostinn þegar hann lækkaði flugið og og stefndi á hafið, þar sem hann lenti heilu og höldnu. Hurðin vélarinnar opnaðist og eftir skamma stund birtist vélbátur og voru farþegar studdir út í bátinn ásamt töskum og öðrum farangri. Mér var ekki skemmt þarna í opnum bátnum og mér varð óglatt af olíubrælunni úr vélarraúminu, enda með afbrigðum sjóveik, en sem betur fer var þetta stutt ferð.
Mér létti þegar við nálguðumst bryggjuna og þar var mættur Kári bróðir og Margrét, heimasætan á heimilinu, sem var þremur árum eldri en ég ásamt pabba hennar. Ekki var neinum bíl fyrir að fara á heimilinu, en trúlega höfum við setið á vagni dregnum af dráttarvél.
Frá Þingeyri að Meðaldal var ekki löng leið og beið Bjarney, húsmóðirin á heimilinu, eftir okkur með kvöldmatinn. Okkur Margréti varð strax vel til vina og átti ég tvo, þrjá skemmtilega daga við leik og störf í Meðaldal, eða þangað til fjölskyldan sem ég átti að dvelja hjá kom og sótti mig.
Arnarnúpur Nú var stundin upprunninn og í hlað kom grænn jeppi sem ekið var af manni í næsta dal, Haukadal. Hjónin áttu engan bíl. Út úr bílnum stigu hjónin og fjögur börn. Mér féll allur ketill í eld. Konan var lítil og hnellin með permanent í hárinu og tannlaus í efri góm, maðurinn var meðalmaður á hæð, grannur og mjög gæðalegur að sjá. Krakkarnir voru frá 7ára og þaðan af yngri, tveir strákar og tvær stelpur yngri, ósköp fallegir krakkar. ”Hvað var ég búin að koma mér í?” – við tróðum okkur öll inn í jeppann og sátum á hliðarsætum aftur í og varningur á gólfinu á milli sætanna. Nú var lagt af stað og ekið sem leið lá í átt að Keldudal. Við fórum fram hjá Haukadal þar sem nokkrir bæir voru og þar bjuggu tveir bræður húsabónda míns. Vegurinn út í Keldudal lá í miðri fjallshlíð og þverhnípt niður i sjó. Þegar ég leit út um gluggann sá ég beint ofan í í sjó. Á þessum tímapunkti var eftirsjáin orðin svo mikil að hafa lagt út í þetta ævintýri að mér var eiginlega sama þó bíllinn færi útaf. Ég sagði ekki orð á leiðinni og kökkurinn sat í hálsinum á mér. Loks runnum við í hlað og við blasti hvítt hús með rauðu þaki. Rétt neðan við húsið var skemma þar sem fiskur var þurrkaður og hertur og bak við húsið var útikamar, hurðalaus þar að auki. Reyndar sneri hann niður að ánni og þetta var eina húsið í dalnum sem búið var í. Hinum megin við ána sem rann 70-80 metrum neðan við húsið var lítil kirkja sem hét Hraunskirkja og gamalt skólahús. Um aldamótin 1900 bjuggu um 100 manns í dalnum í smákotum. Húsið stóð undir fjallinu Arnarnúpi sem er mjög tignarlegt fjall og dalurinn var gróinn og fallegur og fjöllin allt í kring.
Eg var varla komin inn um dyrnar á þessu húsi þegar ég var ákveðin í að hér ætlaði ég ekki að dvelja lengi. Um kvöldið hafði ég litla matarlist og grét mig í svefn. Húsið var gamalt og hrörlegt kolavél í eldhúsinu sem kynti upp húsið. Inn af eldhúsinu var búr með skilvindu þar sem undanrenna var skilinn frá rjómanum. Úr undanrennunni var svo búið til skyr. Í kaldri geymslu var stór tunna með trogi. Í troginu var þéttur klútur sem undanrennunni var hellt í og smám saman rann svo mjólkursýra niður í tunnuna, sem þótti hinn besti drykkur við þorsta, en skyrið varð eftir í klútnum. Fjósið var í bragga sem stóð ofar í túninu og í hinum endanum var geymsla. Í fjósinu voru tvær mjólkandi kýr, sem hétu Skjalda og Ljómalind og ein kvíga sem kölluð var Sunna.
Hjónin hafa eflaust séð hvers kyns var og reyndu allt til að geðjast mér. Maðurinn fræddi mig um dalinn sinn og fór með vísur, en hann var mjög skáldmæltur. Á bænum var heimaalningur lítið lamb sem var skaðað á fæti og gat því ekki fylgt móður sinni. Annar afturfóturinn var vafinn í umbúðir og haltraði lambið, sem fékk nafnið Móra. Ég fékk það hlutverk að gefa lambinu úr pela og gaf bóndinn mér lambið, eflaust til að hugga mig. En heimþráin gaf sig ekki. Á Þriðja eða fjórða degi fékk að hringja heim og talaði við mömmu, grét í símann og sagðist vilja koma heim. Mamma var nú ekki á því. Hún sagði: ” þú vildir fara og þú verður þarna”. Svo mörg voru þau orð. Nú var ekki um neitt að ræða annað en að hysja upp um sig og reyna að þrauka. En hugsanir mínar fóru á flug, var ég kannski ekki dóttir mömmu og pabba, gæti verið að ég væri ættleidd, úr því að hún vildi ekki fá mig heim?
Um þetta leyti gaut kisan á bænum fimm kettlingum. Þeir voru allir yndislega fallegir og fengum við krakkarnir að eigna okkur einn kettling hver. Ég var farinn að fara í fjósið með konunni og hún leyfði mér að taka þátt í að skilja mjólkina og svo þurfti að hafa ofan af fyrir krökkunum. Einn af þessum fyrstu dögum fór bóndinn í Kaupstað og kom heim með gamla dráttarvél og heyvagn aftan í.
Næstu helgi var allur skarinn dubbaður upp í spariföt skellt upp á vagninn og nú var haldið til Þingeyrar þar sem hreppskosningar fóru fram. Á heimleiðinni var stoppað í Haukadal og heilsað upp á frændfólk bóndans. Systir hans átti heima þar og átti hún 8 börn. Hana munaði ekki um að taka á móti okkur og bauð upp á veitingar. Mér fannst skemmtilegt að hitta krakka á mínu reki, en stoppið var stutt og áfram var haldið þennan hrikalega veg. Í þetta skiptið var ég mjög fegin að komast aftur í Keldudalinn heil á húfi.
Einn daginn þurfti að vitja um rauðmaganetin. Bóndinn átti lítinn árabát og konan þurfti að fara með til að hjálpa honum að draga inn netin. Við krakkarnir vorum öll tekin með í bátinn og róið var út á sjó. Sjóveiki mín gerði fljótt vart við sig ásamt hræðslunni við að báturinn myndi sökkva með okkur öll. Ekki var um nein björgunarbelti að ræða. Börnin virtust alveg óhrædd enda alvön að fylgja foreldrunum eftir í öll ferðalög. Úr netunum komu ropandi rauðmagar og grásleppur og gekk þetta slysalaust fyrir sig þar sem veðrið var gott.
Þegar á land var komið var gert að fengnum. Við fengum nýjan rauðmaga að borða og borðaði ég með bestu list enda vön rauðmaganum af Skaganum. Stærsti hluti aflans var saltaður og hengdur upp í hjallinn á hlaðinu til þerris. Það sem eftir lifði sumars fengum við saltaðan, hanginn rauðmaga með grautnum á kvöldin. Þetta fannst mér ágætismatur. Þetta var í fyrsta og síðasta skiptið sem ég fór til sjós að vitja neta, þar sem nokkrum dögum síðar kom vinnumaður, 12 ára frændi bóndans, sem sá um að aðstoða við slík verk, enda var rauðmagavertíðin senn á enda. En þetta voru ekki einu aðföngin sem bóndinn dró úr sjó, hann skaut seli og kjötið var notað til matar. Annars var lítið um nýmeti. Saltaður fiskur var aðallega á borðum, saltkjöt og súrt slátur og grautar. Ekkert grænmeti nema kartöflur, en konan bjó til sósur með njóla útí. Allt var bakað heima, brauð og rúgbrauð og á sunnudögum voru bakaðar svokallaðar ”Bjössakökur” smákökur, sem brögðuðust mjög vel. Svo var náttúrulega smjör og skyr og rjómi út á. Ég man ekki eftir að ég hafi verið svöng, alltaf var nóg að borða.
Enn bættist í krakkaskarann, því frænka bóndans, einu ári eldri en ég, kom einn daginn og var það sem eftir lifði sumars. Það glaðnaði heldur betur yfir mér að fá þennan félagsskap og þar með var öll heimþrá á bak og burt.
Nú var flutt af neðri hæðinni upp á loft hússins þar sem eitt stórt alrými var með rúmum meðfram öllum veggjum auk tveggja lítilla herbergja. Fengum við kaupakonurnar ungu annað herbergið og kaupamaðurinn fékk hitt. Við stelpurnar þurftum að deila rúmi. Leið svo sumarið og ég undi hag mínum ágætlega, enda nóg að gera.
Bóndinn sló heyið með dráttarvélinni þar sem henni var við komið, annars var notað orf og ljár. Við krakkarnir öll og húsmóðirin sáum um að snúa heyinu og gengum í röð eftir stærð. Ótrúlegt var hversu dugleg þessi litlu börn voru að hjálpa til. Svo þurfti að sækja kýrnar og fór ég oft til þess og þurfti þá að vaða yfir ána sem rann eftir dalnum.
Þvottadagarnir voru ógleymanlegir. Niður við ána var gömul kolaeldavél sem kveikt var upp í. Vatn var hitað í stórum potti og þvotturinn handþveginn á bretti. Síðan var sá þvottur sem þurfti að sjóða soðinn í pottinum. Skolað var með vatni úr ánni í stórum bala. Allt gert í höndunum. Það var því um að gera að nota góðviðrisdaga til að þvo þvottinn.
Í eldhúsinu var vatnsdæla sem dældi vatni úr brunni einhvers staðar í túninu. En á miðju sumri bilaði hún, þannig að við þurftum að sækja vatn í ána og var það notað bæði til drykkjar og til að þvo sér úr. Ekki var um sturtu eða bað að ræða og voru börnin böðuð stöku sinnum úr stórum bala. Ekki man ég eftir að hafa farið í bað þetta sumarið, sápan og þvottapokinn voru látin duga og hárið þvegið í vaskafati. Ekki varð mér meint af þessu.
Þegar líða tók á sumarið ákváðu mamma og pabbi að gera sér ferð vestur á firði og sækja okkur Kára. Þetta var mikið tilhlökkunarefni. Sumarið var gjöfult á bláber og fórum við krakkarnir næstum daglega seinnipartinn í ágúst til að tína ber sem við borðuðum út á skyrið eða með rjóma. Húsbóndinn hafði það fyrir barnsvana að sleikja alltaf diskinn sinn í lok máltíðar. Áreiðanlega hefur oft verið þröngt í búi þegar hann var að alast upp og því passað upp á að engin matarögn færi til spillis. Ég spurði hann hvort hann sleikti diskinn líka þegar ókunnugt fólk kæmi í heimsókn og var þá með foreldra mína í huga. Hann sagðist skyldi lofa mér því að hann myndi ekki sleikja diskinn þegar foreldrar mínir kæmu.
Nú leið að komu þeirra og bóndinn hafði svo mikið við að hann slátraði lambi, sem mér fannst í raun og veru alveg hræðilegt, þar sem ég hafði fyrir augum mér litla heimaalninginn sem ég átti, og fékk að lifa þrátt fyrir að vera haltur. Húsmóðirin gerði að kjötinu og við fengum fína kjötmáltíð þegar þau komu og þar að auki setti húsbóndinn hurð fyrir kamarinn. Við börnin vorum send í berjamó til að tína aðalbláber í eftirmatinn sem við borðuðum með þykkum rjóma.
Nú var komið að heimferð og satt best að segja hafði mér liðið vel þarna um sumarið og skapaði minningar sem eru dýrmætar í fjarsjóðskistuna þrátt fyrir að eg hafi grátið mig í svefn fyrstu vikuna. Er ævinlega þakklát mömmu fyrir að kenna mér að taka mótlæti. Þegar ég kvaddi bóndann laumaði hann að mér hundraðkrónuseðli og spurði mig jafnframt hvort ég vildi að lambið fengi að lifa. Ég sagði honum að hann skyldi ákveða það. Móra hefur eflaust verið látin í sláturhúsið þar sem hún var hölt og ekki mikið gagn í henni, en minningin lifir um litla lambið sem ég fékk að gefa mjólk úr pela og slá eign minni á þetta sumarið. Við héldum til Meðaldals og dvöldum þar eina eða tvær nætur. Var þá haldið til til Ísafjarðar með bíl. Við fengum að gista eina nótt þar hjá skyldfólki Bjarneyjar í Meðaldal. Næsta morgun fórum við með bát frá ísafirði til Arngerðareyrar. Þar beið rúta sem tók allt fólkið og ók okkur til Reykjavíkur. Þessi ferð tók allan daginn.
Barnastúkan Stjarnan nr. 103 Haustið var komið og við tók hið venjubundna líf með skóla, píanótímum og þeim íþróttum sem í boði voru. Annan hvorn sunnudag var farið á stúkufundi klukkan 10 að morgni, mér fannst ég orðin of gömul fyrir sunnudagaskólann. Á þessum fundum var mikil reglufesta og ýmis embætti með tilheyrandi rauðum flauelis herðaslám og horfði maður með forundran á þá sem hlotnaðist slíkur heiður. Þeir sátu við háborð og stýrðu fundunum. Gæslumenn voru einn kennari úr barnaskólanum sem hét Þorgils Stefánsson og Óðinn Geirdal. Eflaust hafa um hundrað börn setið þarna, og voru allir í sunnudagsfötunum. Allir hlustuðu vel og engum datt í hug að trufla. Kapelánin las bænir og organistinn spilaði tvo sálma sem ávallt voru sungnir. Þorgils var einatt með stórt segulbandstæki og hlustuðum við á skemmtiatriði, ýmis leikrit, sögur og söngva sem hann hafði tekið upp í sínum frítíma. En hinar ýmsu bekkjardeildir í skólanum fengu það hlutverk að sjá um skemmtiaðtriðin. Yfirleitt hafði Þorgils fundið einhver leikrit úr barnatímaritum sem við síðan leiklásum. Þegar ég var ellefu eða tólf ára, hlotnaðist mér sá heiður að vera gerð að organista og spilaði á lítið fótstigið orgel sem þarna var. Steinunn vinkona mín var dubbuð upp í kapelán.
Þarna var náttúrulega rík áhersla lögð á að aldrei skyldi maður byrja að reykja og auðvitað átti maður að forðast alla óreglu. Þeir sem að einhverjum ástæðum féllu í freistni og prófuðu að reykja gátu látið endrureisa sig- og var það sérstök athöfn. Þetta kom nú ekki oft fyrir en ég man sérstaklega eftir tveimur drengjum sem viðurkenndu að hafa reykt og voru endurreistir. Þorgils hrósaði þeim sérstaklega fyrir heiðarleikann og og fannst okkur börnunum þetta vera miklar hetjur. Hvort þeim tókst að forðast reykingar upp frá þessu læt ég ósagt.
Stúkuhúsið stóð við Háteig og þar fóru fram ýmsar skemmtanir og fundarhöld annarra félaga. Þar fékk tónlistarskólinn inni og fór ég í mína fyrstu píanótíma þangað og þar var tónfræðin kennd til að byrja með. Stúkuhúsið stendur núna í Byggðasafninu í Görðum.
Unglingsárin 12 ára gömul fór ég aftur í sveit. Í þetta sinn í Borgarfjörðinn, Eskiholt í Borgarhreppi. Húsráðendur voru Bjarni Sveinsson og Kristín Guðmundsdóttir, sem ráku þar myndarbú, með kindum og kúm. Jörðin var tvíbýli og á hinum bænum bjó Finnur bróðir Bjarna. Fjósið var sameiginlegt, skipt eftir miðju, trúlega hafa verið 15 mjólkandi kýr á hvorum bæ. Litil samskipti voru á milli heimilanna og sá ég þá bræður aldrei talast við, en einhvers skonar þegjandi samkomulag var um hlutina. Fjárhúsin voru ekki sameiginleg.
Á heimilinu voru fjögur uppkomin börn þeirra hjóna og unnu þau öll hörðum höndum við búið. Tveir elstu synirnir ráku auk þess bú á Brennistöðum og fóru þangað snemma morguns og komu heim að kveldi. Þeir komu þó ávallt í hádegismat á jeppanum. Móðir þeirra sá um að fóðra þá og þvo af þeim. Á heimilinu voru auk mín tveir strákar á sama aldri og ég og var annar úr Reykjavík og hinn úr Hafnarfirði. Þeir fengu að keyra dráttarvélina og gera ýmislegt sem okkur stelpunum var ekki treyst fyrir. Svo kom stelpa úr Reykjavík, ári eldri en ég. Mér var treyst fyrir að reka beljurnar og sækja þær, auk þess að fara í fjósið og hjálpa til þar. Við stelpurnar sáum líka um að þrífa gólfin og þurrka af og hjálpa til við þvottana á þvottadögum, og svo auðvitað að þvo upp. Þegar heyskapur byrjaði vorum við líka með rökuðum upp það sem vélarnar gátu ekki tekið. Við deildum herbergi með heimasætunni sem var á þrítugsaldri og fór vel á með okkur. Þegar illa viðraði mátti alltaf ná sér i bók, en uppi á lofti var fullt af unglingabókum og las ég talsvert þetta sumar, þá sérstaklega á kvöldin. Ég undi mér vel á þessum stað og kom okkur krökkunum vel saman. Þegar ég fór heim stakk bóndinn þúsundkalli að mér og fannst mér ég mjög rík.
Næsta vetur var síðasta árið í barnaskólanum og lauk því með fullnaðarprófi og eftir það tók við gagnfræðaskólinn. Þar var dálítið annar bragur og allt í föstum skorðum. Skólastjóri var Ólafur Haukur Árnason og var hann þekktur fyrir ákveðni og stýrði skólanum af mikilli festu. Mikil virðing var borin fyrir kennurunum, þó svo að sumir kæmust upp með ólæti. Upp var tekin einkunnagjöf fyrir hegðun, til þess að halda aga í skólanum. Þetta kom sér ekki vel fyrir nemendur sem áttu erfitt með að sitja kyrrir og hafa hljóð. Kári bróðir var mikill fjörkálfur og átti erfitt með að sitja á strák sínum. Einhverju sinni fékk hann frekar lága einkunn í hegðun, sem hafði þær afleiðingar að undir vissri hegðunareinkunn fengi hann ekki að taka þátt í að sýna á árshátíð skólans. Kári var mjög góður íþróttamaður og hafði verið valinn í flokka drengja til að sýna leikfimi á árshátíðinni. Nú átti hann ekki að fá að vera með, en íþróttakennarinn var nú ekki á þeim buxunum og samdi við skólastjórann um undanþágu fyrir Kára.
Í bekknum okkar var dálítill órói þennan fyrsta vetur og vorum við dálítið eins og kálfar að vori eftir að sleppa undan vökulu augnaráði Guðjóns kennara okkar, sem hélt undraverðum aga. Það var samt takmark okkar að fá 10 í hegðunareinkunn. En fyrirmyndarnemendurnir Inga Þóra og Steinunn fengu eitt sinn 9 í hegðun og þótti það ekki gott. Í ljós kom að við þóttum spjalla of mikið saman í tímum.
Þennan vetur gengum við til prests, eins og kallað var. Fermingarárið var framundan. Presturinn hafði þann háttinn á að við öll trúlega kringum 80 fermingarbörn mættum í kirkjuna einu sinni í viku, klukkutíma í senn þar sem farið var yfir kverið. Við áttum að læra einn sálm fyrir hvern tíma, en þar sem okkur var ekki stranglega hlýtt yfir var allur gangur á því hversu mikið var lært. Presturinn sr. Jón M. Guðjónsson var mikið ljúfmenni. Hann kom því á fyrstur presta að taka upp fermingarkirtla til þess að auka á jafnræði meðal fermingarbarna, allir eins klæddir.
Engu að síður var mikið rætt um fermingarkjóla, kápur og skó. Hælaskór skyldu það vera. Maður var nú ekki vanur að ganga í þess lags skótaui og var ég svolítið kvíðin um að ég myndi hrasa í þeim í kórtröppum kirkjunnar, dreymdi það stundum á nóttunni. Ferð var gerð til Reykjavíkur til að kaupa fermingarkápu, skó og efni í kjól sem mamma ætlaði að sauma. Ég fékk bláa kápu, hvíta skó og fermingarkjólinn var úr gulu og hvítu efni. Í þessari innkaupsferð hitti mamma kunningjakonu sína í Lækjargötunni. Þegar þær höfðu heilsast sagði konan: «ertu svo með systur þína með þér, Sveina mín» – mér varð allri lokið!!! Hvað hélt konan eiginlega að ég væri gömul???? – þó maður vildi nú vera fullorðinslegur, þá var þetta nú einum of mikið.
Fermingin varð viku seinna en til hafði staðið þar sem Þórður á Vegamótum, pabbi Gulla frænda, sem einnig átti að fermast sama dag, dó viku fyrir áætlaðan fermingardag. Hann var jarðaður viku fyrir fermingardaginn. Þetta var fyrsta dauðsfallið í náinni fjölskyldu og mín fyrsta jarðarför. Eg hélt að ég myndi springa af sorg. Það var því blandin tilfinning að halda fermingarveislu undir þessum kringumstæðum.
Svo rann dagurinn upp, bjartur og fallegur, athöfnin í kirkjunni hátíðleg og eftirminnileg. Margir komu í fermingarveisluna sem mamma hafði undirbúið svo fallega – allt heimabakað. Margar fallegar gjafir glöddu mig, og langþráð úr fékk ég frá mömmu og pabba. Einhverja peninga fékk ég líka sem ég notaði til að kaupa mér hansahillur og skrifborð auk kommóðu. Nú var ég komin með fínt herbergi, sem ég gat boðið vinkonum mín í.
Mamma og pabbi höfðu ráðist í að opna verslun fyrr þetta ár. Því varð sumarvinnan mín næsta sumar í versluninni Drífanda, sem var vefnaðarvöruverslun. En þar vann ég í öllum fríum þangað til ég varð 18 ára.
Fimmta barnið bættist í hópinn. Næsta vetur urðum við börnin vör við að mamma tók að þykkna undir belti. Við systkinin vorum mjög glöð með það að eignast lítið systkini. Þetta vor átti Kári að fermast og kom Laufey í heiminn 6. maí, yndisleg lítil hnáta. Við systkinin vorum svo hrifin af henni og um leið og heyrðist í henni vorum við öll stokkin til, allir vildu fá að halda á henni og gæla við hana.
Kári fermdist tveimur vikum seinna ásamt, Valda syni Þuru systur pabba og Jóhönnu dóttur Einars, eldsta bróður pabba. Veislan var sameiginleg og haldin úti í bæ. Adda systir mömmu kom á Skagann til að aðstoða mömmu við undirbúning fermingarinnar. Sama dag var Laufey Guðríður skírð heima í stofu. Hún heitir eftir tveimur frænkum mömmu. Guðríðarnafnið var mömmu mjög kært, en hún hafði dvalið mikð hjá Guðríði í Guðnabæ, afasystur sinni sem barn og var alla tíð mjög handgengin henni. Guðríður ( Gudda, eins og hún var alltaf kölluð) kom við skírnina, háöldruð nálægt hundrað ára. Laufeyjarnafnið var frá frænku sem bjó alla tíð í Kanada, en kom nokkrum sinnum í heimsókn til Íslands og bjó þá hjá mömmu. Þessi dagur er mjög eftirminnilegur.
Sumarið sem í hönd fór var nóg að gera. Mamma fór fljótt að vinna í búðinni og var ég aðstoðarkona og barnapía. Ég fór nánast ekki úr húsi á kvöldin, fannst svo spennandi að vera nálægt litlu systur og fylgjast með henni.
Í agústmánuði fóru mamma og pabbi með Þuru til Danmerkur í skurðaðgerð. Þá var Laufey þriggja mánaða gömul. Mamma minntist oft á hversu erfitt var fyrir hana að yfirgefa ungabarnið með brjóstin full af mjólk. En um leið gladdi hún Jóu systur sína sem fékk það hlutverk að gæta Laufeyjar sem svaf í vöggu við hliðina á hjónarúminu, þar sem ég svaf einnig. Þetta var Jóu hugsvölun, þar sem hún var enn í sorg eftir andlát Þórðar. Mamma og pabbi voru í þrjár vikur í ferðinni og var mér treyst fyrir versluninni á meðan, 15 ára gamalli. Þetta var reynslutími, en ekki minnist ég þess að mér hafi fundist þetta erfitt, tók þessu eins og sjálfsögðum hlut. – Jóa frænka var einstök, svo hlý og góð og alltaf jákvæð og litla hnátan veitti henni ómælda gleði og stytti henni stundir. Laufey var mikill sólargeisli, svo meðfærilegt barn og einstaklega skýr og fljót til máls. Mamma setti hana á leikskóla þar sem hún fékk að vera nokkra tíma á dag. Hún sagði þegar hún kom heim einn daginn þá tveggja ára gömul: «krakkarnir tala bara smábarnamál» Hún var farin að syngja áður en hún gat talað og hefur sungið síðan.
Landsprófið Næsta vetur á eftir fór ég í landspróf, sem í raun var inntökupróf í menntaskóla. Skólastjórinn lagði ríka áherslu á það við bekkinn okkar, sem hefur trúlega samanstaðið af 15-16 nemendum, að nú þurftum við að láta hendur standa fram úr ermum og það þýddi ekkert gauf, ef við ætluðum ekki að enda sem eyrarkarlar!!! – við áttum sem sagt að einbeita okkur að náminu, og helst ekki gera neitt annað. Þarna gerði ég reginmistök að eigin dómi, hætti í tónlistarskólanum til að dekra við hugmyndina um stúdentshúfuna. Við í landsprófsbekknum fengum ekki að taka þátt í skemmtiatriðum á árshátíðinni vegna þess að ekki mátti taka tímann frá lærdómnum.
Þetta létum við yfir okkur ganga til að þjóna lærdómsgyðjunni. Árangurinn skilaði sér svo sannarlega – aldrei höfðu jafnmargir nemendur í Gagnfræðaskóla Akraness náð landsprófinu. En ég er viss um að það var ekki þessu þátttökuleysi í félagsstörfum að þakka.
Fyrir landsprófið fengum við þriggja vikna upplestrarfrí og síðan komu prófin kannski með eins dags millibili. Við bekkjarsystkinin tókum þessu mjög alvarlega og fórum út að ganga kl. 7 að morgni áður en við fórum heim að lesa, man nú ekki hvort við héldum þetta út allan tímann. Í lokin fór svo bekkurinn í eftirminnilega ferð á Snæfellsnes með umsjónarkennara okkar, Þórarni Ólafssyni, þar sem við gistum í sæluhúsi á Fróðárheiði. Kvöldinu eyddi hann með okkur með skemmtisögum og draugasögum frá Fróðárheiði. Þetta var góður hópur og minnist ég bekkjarsystkina minna með mikilli gleði.
Ólafur Haukur, skólastjóri, kenndi okkur dönsku öll árin. Hann var frábær kennari og minnist ég hans sem einhvers besta kennara sem ég hef haft. Hann var ákveðinn og gerði allt til þess að við næðum sem bestum árangri, en hann var líka skemmtilegur og sló oft á létta strengi og hló þá innilega.
Ólafur kom á skemmtilegri menningu í skólanum að mínu mati, þó svo að allir sé mér ekki sammála. Hann fól nemendum alls konar ábyrgð, útnefndi inspektor scola að hætti menntaskólanna, sem var valinn úr fjórðubekkingum, einhvers konar nemendaráð og nefnd til að stjórna árshátíðinni og fleiri nýjungar. Tvisvar í viku var öllum safnað á sal í upphafi skóladags og þá voru sungnir sálmar og lesinn ritningarlestur. Á föstunni voru passíusálmarnir lesnir þessa daga. Ekki man ég eftir að nokkur hreyfði mótmælum við þessu. Stundum voru tilkynningar lesnar á undan eða eftir.
Stundum fékk hann merka einstaklinga til að fræða eða skemmta okkur og þá var öllum safnað á sal, hver með sinn stól. Hann kom einnig á samkeppni milli bekkja til að örva skólasókn og stundvísi. Sá bekkur sem stóð sig best í hverjum mánuði fékk frí einn dag. Þetta leiddi til þess að væri einhver í bekknum sem var óstundvís fékk hann alveg að heyra það. Svo langt gekk þetta sums staðar að stúlka í einum bekknum tók að sér að banka hjá einum bekkjarfélaga snemma morguns til að koma honum í skólann á réttum tíma.
Menntaskólaárin
Það var stórt skref að flytja að heiman. Fjölskyldan bjó á Akranesi og ég var á leiðinni í Menntaskólann í Reykjavík. Ekki man ég hvernig það atvikaðist að ég fékk að búa hjá Björgu Jónsdóttur, Hringbraut 113 í Reyjavík. Ég hafði kynnst dóttur hennar Ingibjörgu á skólamótum í Vatnaskógi og varð okkur vel til vina. Við Ingibjörg deildum herbergi og kom afskaplega vel saman. Skólinn var eftir hádegi byrjaði kl. 13:40 til 18:30, þe. fyrsti veturinn. Maður var orðinn þreyttur þegar heim kom og því var kærkomið að gera eitthvað annað. Við Ingibjörg stunduðum allar samverur sem hægt var að finna í KSS og KFUM/K sem voru við okkar hæfi á kvöldin. Svo vorum við báðar í æskulýðskór KFUM/K. Í þessum félagsskap eignaðist ég vini fyrir lífið. Á morgnana sat ég við og lærði. Námið gekk þokkalega, þó svo að ég hefði getað reynt meira á mig, en ég tók félagslífið fram yfir námið þennan vetur.
Næsta vetur breyttust hagir fjölskyldunnar. Mamma og pabbi ákváðu að flytja til Reykjavíkur þar sem þau vildu koma Þuru í betra skólaúrræði. Þau fengu leigða íbúð við Laugarásveg 1. Þura fór í Höfðaskólann sem var ekki langt frá, Hörður fór í Laugalækjaskóla og Kári í Austurbæjarskóla.
Pabbi fékk vinnu á rakarastofu og mamma var heima með Laufeyju. Reyndar voru þau ekki búin að selja Drífanda á Akranesi og fór mamma því oft á Skagann til að fylgjast með. Þau leigðu líka efri hæðina á Heiðarbrautinni en höfðu herbergin á neðri hæðinni til eigin afnota þegar þau fóru á Skagann. Laufey átti alltaf vísan samastað hjá Jóu frænku í þessum ferðalögum. Okkur leið vel á Laugarásveginum og öll höfðum við í nógu að snúast, bæði í skóla og félagslífi. Kári hélt áfram að æfa sund og eignaðist góða félaga þar. Hann var mjög góður sundmaður og komst í landsliðið.
Þennan vetur gerðist ýmislegt í lífi mínu sem átti eftir að hafa örlagarík áhrif. Ég sótti KSS, Kristileg skólasamtök á laugardagskvöldum, en þar var formaður Jón Dalbú. Hann stjórnaði fundum af mikilli röggsemi og innlifun auk þess sem hann spilaði undir söng af þvílíkri snilld að hann hreif alla með sér. Ég hreifst af þessum pilti og meira en það, varð ástfanginn. Eitthvað sá hann við mig og við hittumst svo lítið bar á, því hann vildi að við héldum þessu leyndu um tíma. Stundum kom hann á bíl bræðra sinna og flautaði fyrir utan Laugarásvegin þar sem ég sat og las mínar lexíur inni í herbergi. Þá þaut ég út og fór í bíltúr með honum, þar sem talað var um alla heima og geima, fundinn afvikinn staður fyrir smá kossaflens. Stundum fórum við í kvöldgöngutúra.
Sumarið 1966
Um vorið fór Jón til Þýskalands til að læra þýsku hjá þýskum prestshjónum og í byrjun Júní hélt ég til Englands. Eg fór í skóla, svokallaðan finishing school, sem var ætlaður fyrir ungar stúlkur til að læra ensku ásamt því hvernig dömur hegða sér. Þar voru stúlkur á mínum aldri og flestar komu frá öðrum löndum en Bretlandi. Skólinn var í Kent sem er í suðaustur Englandi nálægt borginni Sevenoaks. Húsakynninn voru gamall herragarður upp á tvær hæðir. Á efri hæðinni voru svefnherbergin em hýstu námsmeyjarnar á neðri hæðinni var matsalur, samkomusalur, þar sem haldnir voru ýmsir viðburðir, eldhús, bókasafn með sjónvarpi og herbergi fyrir starfsfólk.
Allt var i föstum skorðum. Við söfnuðumst saman við morgunverðarborðið kl. 8.30. alltaf var boðið upp á buns ( stórar hveitibollur), með smjöri osti og marmelaði. Við morgunverðarborðið var pósti deilt út og var alltaf spennandi að sjðá hvort marður fengi póst. Ég fékk mjög oft póst frá fjölskyldu og vinum og síðast en ekki síst frá mínum heittelskaða sem á var í Þýskalandi.
Efir morgunmat voru kennslustundir, alltaf var kennd enska, en þær stelpur sem höfðu verið allan veturinn voru að undirbúa sig undir A level próf í ensku og fékk ég að vera með í þeim hópi. Svo var tónlistarkennsla, útreiðar, tennis í vali og listasaga sem allir tóku þátt í. Í hverri viku var farið til London á söfn þar sem nemendur áttu að kynna sér þann málara sem kynntur hafði verið fyrir þeim í vikunni á undan. Oft voru farnar skoðunarferðir í nágrennið og sögufrægir staðir skoðaðir, td. fórum við að skoða hús Winstons Churchills.
Ég var í herbergi með þýskri stúlku, sem hét Beate von Woerts. Hún sagðist vera frá Austurríki, en bjó með stjúpföður og móður sinni i Hamburg. Það var eins og hðun skammaðist sín fyrir að vera þýsk. Hún var mjög sérstök og upptekin af útliti sínu. Þegar við flestar sátum í bókaherberginu á kvöldin þá sat hún uppi á herbergi, fyrir framan spegilinn með alls konar snyrtivörur og málaði sig. Skólastýran var mjög sérstök, mér fannst hún gæti verið um sextugt amk. Hún var lítil og þybbin, hafði búið í ýmsum löndum þar á meðal í Japan. Hafð verið gift ríkum manni og og keypti þetta hús sem kallað var The Grove og stofnað þennan skóla. Þessi kona átti mjög litríkan feril, fædd i Sviss af enskum foreldrum og alin upp þar. Hún giftist þrisvar, og bjó með konu í Austurríki á tímabili. Hún eignaðist tvo syni, talaði, bæði frönsku og ensku og með einum eiginmanna sinna flutti hún til Japan, sem hún hreifst mjög af og varð mjög tengd Japanskri menningu. Síðustu æviárum sínum eyddi hún í USA hjá syni sínum.
Þetta sumar leið mjög hratt og var einstaklega skemmtilegt á allan hátt, bæði að kynnast Englandi og öllum þessum stúlkum sem komu alls staðar að. Ég náði góðum tökum á enskunni sem bjargaði mér seinni tvö árin í MR. Menntaskólaárin liðu hratt og um jólin 1967 opinberuðum við Jón trúlofun okkar. Eftir MR fór ég í Kennaraskólann og náði mér í kennarapróf á einu ári. Ég var orðin þreytt á náminu í MR og fannst upplagt að ná mér í kennararéttindi á svo skömmum tíma. Ekki get ég sagt að ég hafi verið upprifin yfir því námi sem fór fram þar, fyrir utan þann tíma sem við vorum í æfingakennslu. Það fannst mér mjög áhugavert, og sótti því um kennarastarf í Árbæjarskóla að námi loknu.



