Áhugamál

Hér mun ég birta ýmislegt sem tengist áhugamálum mínum.

Ég er svo heppin að eiga mörg áhugamál. Sem barn var tónlist mér afar hjaratfólgin og fékk ég að læra á píanó. sem ég hafði mikla ánægju af og sem kynnti fyrir mér heim klassískrar tónlistar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og píanóleikur hefur horfið fyrir öðrum áhugamálum og öðrum þáttum í lífinu. Hins vegar nýt ég þess ávallt að hlusta á tónlist og fara á tónleika. Ég hef alltaf haft gaman aðf að fylgjast með íþróttum og tók virkan þátt í þeim sem barn og unglingur. Núna beinist áhuginn minn fyrst og fremst að því að fylgjast með okkar frábæra íþróttafólki sem við Íslendingar erum ótrúlega rík af. Sömuleiðis finnst mér ótrúlega gaman að fylgjast með barnabörnunum sem iðka íþróttir. Hins vegar er ekki hægt að segja að íþróttir séu hluti af mínum tómstundum í dag. Þykir gott ef ég dríf mig útí göngutúr eða geri nokkrar æfingar hér á stofugólfinu.

Mín aðalíþrótt að sumri til hefur verið að stússast í blómabeðum, koma til plöntum, sá fræjum, ganga um landið okkar í Borgarfirðinum og fylgjast með því hvernig trén dafna í hrjóstrugum jarðvegi. Þessi útivera í guðsgrænni náttúrunni eykur lífsgæðin. Að horfa á hvernig lífið færist í jörðina um leið og frost fer úr jörðu trén taka á sig græna kápu og bláberjalyngið bleikan lit, sætukoppanna. Grænu litirnir eru í ótal litbrigðum og breytast eftir því hvernig sólin skín. Já það eru forréttindi að fá að gramsa í moldinni og hlú að gróðrinum, sem sprettur án þess að maður hafi nokkuð um að að segja, nema auðvitað gengur þeim plöntum betur sem hlúð er að, settar í skjól eða gefinn áburður. Ræktun í hvaða formi sem er lítur sömu lögmálum og það á einnig við um mannrækt og uppeldi allt, sem mér er líka afar hjartfólgið.

Nýjasta áhugamálið mitt er myndlist. Vinkona mín kom að máli við mig og spurði hvort ég væri ekki til í að kíkja á myndlistarnámskeið þar sem kynnt væri akrylmálning. Ég sló til og fékk bakteríuna. Byrjaði að fikta við að mála og fann þvílíka ró færast yfir mig. Það að fá að blanda litii og sjá þá birtast á blaði var mér hugljómun. Ég hafði aldrei komið nálægt málningarpenslum, hvað þá að mér hefði dottið í hug að ég gæti sett einhverja mynd á blað. – En að stíga út fyrir rammann og prófa eitthvað nýtt er svo ótrúlega hollt.

Mig langaði að kynnast málaralistinni betur og fór að vafra á netinu og horfa á myndbönd á youtube, en þar er gnægð efnis af þessu tagi. Maður getur lært mikið af því að horfa á hvernig listamenn fara að og fylgja leiðbeiningum þeirra. Margir listamenn eru með námskeið fyrir byrjendur og lengra komna online og skráði ég mig hjá einum þeirra og hef keypt mér aðgang að ýmsum námskeiðum hjá honum, sá heitir Malcolm Dewey og býr í S-Afríku. Hann býður upp á sýnikennslu fyrir takmarkaðan hóp einu sinni í mánuði, þar sem hann málar frá byrjun og útskýrir í leiðinni hvers vegna hann notar ákveðna liti og pensla. Síðan býður hann okkur upp á að mála okkar útgáfu að myndinni sem hann hefur haft til fyrir myndar og senda sér hana. í næsta tíma kemur hann svo með gagnrýni á okkar mynd. Þessi málari málari aðhyllist imrpessionisma. en helstu einkenni hans eru:

~ Hreinir litir bornir á léreftið í flekkjum með breiðum pensli
og stundum sköfu
~ Útlínur ógreinilegar
~ Rannsókn á tón og lit urðu til þess að reynt var að tjá leik
ljóssins á yfirborð hluta
~ Myndbygging leysist upp
~ Sóst er eftir heildaráhrifum og smáatriðum sleppt
~ Óvenjuleg sjónarhorn komu fram (áhrif frá ljósmyndum)
þessi aðferð finnst mér mjög heillandi og finnst mjög lærdómsríkt að hlusta og horfa á hvernig þessar myndir verða til. Mikil áhersla er lögð á heita og kalda liti, sterka og daufa liti (litbrigði og tóna), birtu og skugga, uppbyggingu myndar, hvernig penslar eru notaðir os.frv.

Hérna er sýnishorn af myndum sem ég hef málað eftir tilsögn listmálarans.

Svo hef ég auðvitað málað fleiri myndir og er að fikra mig áfram og prófað ýmislegt.