Handbolta-amman!!!

Í gegnum tíðina hefur mikill íþróttaáhugi fylgt fjölskyldunni.Við systkinin alin upp í fótboltabænum Akranesi þegar liðið var upp á sitt besta. Meðlimir stórfjölskyldunnar hafa reynt fyrir sér á ýmsum sviðum íþróttanna og sumir komist á verðlaunapall og átt Íslandsmet. 

Börnin mín hafa aðallega stundað fótbolta. Við foreldrarnir í vorum glöð með að þau tóku þátt og og studdum þau með ráðum og dáð, en við vorum ekki á hverjum fótboltaleik eða að skutla til og frá á æfingar. Strætó var látin duga, og við fórum að horfa á úrslitaleiki. 

En nú er öldin önnur. Foreldrar barnabarna okkar eru á HLIÐARLÍUNNI , vinna í vallarsjoppunni, hjálpa til í fjáröflun, sitja í hinum og þessum ráðum í íþróttafélaginu, keyra yfir heiðar í vetrarfærð til að koma börnunum á keppnisleiki og svona mætti lengi telja. En bæta má því við að þau telja þetta ekki eftir sér og finnst sjálfsagt að styðja við börnin sín á þennan hátt og vita af þeim í góðum félagsskap  burt frá símum og tölvum, alla vega meðan íþróttir eru stundaðar. 

Amma fylgist með  ömmustrákunum sínum, sem eru 10 að tölu, af miklum áhuga en aðallega í spjalli við þá. Nú er það bæði fótbolti og handbolti. Drengjunum í handboltanum sem nú eru 3 að tölu vegnar vel og amma var orðin spennt að sjá þá með eigin augum. Mér fannst kominn tími til að láta verkin tala og ákvað að fara og sjá þá á handboltamóti í Víkingsheimilinu sl. helgi, þrátt fyrir mikla vetrarfærð. Þessir drengir eru 13 ára, annar spilar í marki og hinn er á miðjunni. 

Amma var stolt að sjá þá standa sig mjög vel og leggja sig 100% fram í leikjunum. Ég sat þarna með annarri dóttur minni sem hvatti óspart sitt lið áfram. Þegar ég hafði kvatt drengina eftir leikinn og hrósað þeim fyrir góða frammistöðu fór ég að huga að heimferð. Dóttir mín ætlaði að hinkra eftir strákunum. 

Ég opna dyrnar á Víkingsheimilinu og stíg út, ánægð með að hafa sýnt áhuga minn á íþróttinni í verki. Næsta sem ég veit er að ég ligg á hliðinni fyrir framan dyrnar. Ég fann að þetta var talsvert högg og gat þorði ekki að hreyfa mig fyrr en maður kom út og hjálpaði mér að standa á fætur. Í minni miklu bjartsýni ætlaði ég að halda í átt að bílnum mínum og aka heim. Maðurinn studdi mig og ég fann að fóturinn bar mig ekki og komst aðeins fáein skref. Svo í örvæntingu minni bað ég manninn að fara inn i húsið og sækja dóttur mína, hún gæti áreiðanlega hjálpað mér. Hún kemur út um dyrnar og viti menn hún lendir á sama bletti og dettur og ber fyrir sig hendurnar og finnur um leið að eitthvað mikið hefur látið undan. Hún fær strax óbærilegar kvalir í úlnliðinn, kemur samt til mín og spyr hvort sé í lagi með mig og ég spyr hins sama. Þarna stöndum við og horfum hvor á aðra. 

Það drífur að fólk og úr verður að sjúkrabíll er pantaður þar sem ég gat ekki hreyft mig og Heiðrún mín hélt um höndina sína. Einhverjum datt í hug að sækja stóla og þarna sátum við meðan beðið var eftir sjúkrabíl og reyndum að halda uppi húmornum. „ Þetta er nú eins og í skrípamynd“ segir Heiðrún og skellihlær, þrátt fyrir óbærilegar kvalir. Fleiri fleygar setningar flugu „ Sælt er ameiginlegt skipbrot“ ásamt  öðrum gálgahúmor. Þeir sem voru á staðnum reyndu eftir bestu getu að hlúa að okkur og allir fullir samúðar. Nú var farið að að athuga aðstæður á staðnum og þá kom í ljós brunahálka á stígnum upp að húsinu og ekkert hafði verið gert til að hindra að fólk dytti, hvorki salt eða sandur.  Í ljós kom að ekki var til salt í húsinu og þurfti að kalla eftir því utan úr bæ. Þegar við höfðum setið  þarna í uþb. hálftíma kom einhver með salt og sand og bar  á stiginn upp að húsinu. „ Of seint að birgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í“  hraut af munni mér, og „ betra er seint en aldrei“. Vonandi detta ekki fleiri í dag.

Okkur fannst skondið að vera saman í skjúkrabíl, og töluðum um að við gætum verið  þakklátar fyrir að vera heilar í höfðinu. Þetta hefði getað orðið svo miklu, miklu alvarlegra.

Þessa helgi var íþróttamót í húsinu og mörg hundruð manns að ganga þarna út og inn, bæði börn og fullorðnir. Maður spyr sig hvort það sé ekki í verkahrings einhvers að sjá til þess að aðkoma að húsinu sé án slysahættu. Alla vega veit ég að eigendur húsnæðis bera ábyrgð á að moka frá sínum dyrum og eru skaðabótaskyldir ef þess hefur ekki verið gætt. 

Til að gera langa sögu styttri, þá sit ég við eldhúsborðið mitt í hjólastól 5 dögum síðar, þar sem vinstri fótur ber mig ekki, þrátt fyrir að ég sé ekki mjaðmabrotin, sem betur fer. Heiðrún mín var ekki eins heppin þó fæturnir beri hana. Hún er illa brotin á úlnlið og fór í aðgerð daginn eftir. Hún er kennari og fer eflaust að sinna kærum nemendum sínum þegar verkirnir fara að gefa sig. 

Út um gluggann minn horfi ég á strókinn frá eldgosinu á Reykjanesinu og hugsa til Grindvíkinga sem hafa misst svo óendanlega mikið. Hvað er ein lítil bylta  samanborið við  þær hörmungar sem Grindvíkingar eru að ganga í gegnum. 

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.