Nú er virkilega orðið langt síðan ég hef gefið frá mér lífsmark á þessari síðu. Nú er mál að linni.
Margt hefur gerst á þessum tíma. Árið 2020 bjuggum við við heimsfaraldur, covid 19, sem hefur haft mikil áhrif á ýmsar áætlanir okkar. Öllum ferðalögum frestað og þar af leiðandi engar utanlandsferðir. Við ætluðum ma. til Rúmeníu, þar sem Rebekka og Zsolt ætluðu að gifta sig. En því var frestað um ár. Svo nú er að vita hvort úr því getur orðið þar sem veiran geisar um alla Evrópu sem aldrei fyrr. Einnig ætluðum við til Grikklands ásamt saumaklúbbnum mínum með mökum, í september, en það gat heldur ekki orðið. Nú verður tíminn bara að leiða í ljós hvernig þessum faraldri vindur fram. Við hér á Íslandi getum hrósað happi, þar sem faraldurinn er í lágmarki núna og nánasta ekkert smit að greinast hér.
Þrátt fyrir allt erum við svo lánsöm að eiga sumarhúsið okkar í Borgarfirðinum þar sem við höfum notið lífsins frá því í mars og fram á haust, með smáhléum í borginni. Sumarið var okkur hliðhollt og frekar hlýtt á íslenskan mælikvarða. Allir nema einn í okkar fj´ölskyldu hafa sloppið við veiruna nema Hlynur Kristján Árnason, sem fékk hana væga og enginn í kringum hann smitaðist. Við höfum haldið okkur til hlés og einungis hitt nánustu fjölskyldu og ekki alla í einu.
Nú er sól farin að hækka á lofti og janúar senn að ljúka. þar sem ég sit við gluggann minn í Ársölunum er engan snjó að sjá, jörð alauð. Hins vegar hefur óveður geisað um Norður- og Austurland, snjóflóð fallið og hættuástandi líst yfir sums staðar. Við höfum ekki farið mikið í Lyngholt undanfarnar vikur, þar sem veðrið hefur ekki verið spennandi, kuldi og rok í Norðurárdaldum og frostið farið niður í 16 gráður að nóttu til. Fórum hins vegur um síðustu helgi og áttum góða daga, alltaf hlýtt inni.
Þrátt fyrir erfitt ástand hjá ýmsum vegna atvinnuleysis, fjarvinnu, einangrunar og lokunar fyrirtækja og samkomustaða þá eru við svo vel sett, að vera með örugg laun ( komin á eftirlaun) og engin af okkar börnum og barnabörnum hafa misst vinnuna, sem er mjög þakkarvert. Ekki get ég kvartað yfir að hafa ekki nóg að gera. Alltaf getur maður fundið sér eitthvað til dundurs. Hef mikla ánægju af að prjóna. Nokkrar flíkur hafa litið dagsins ljós á síðasta ári.


