Fyrsti pósturinn minn

Hér sit ég í stofunni minni í Lyngholti, sem er sumarhús okkar hjóna. Úti skín sólin og og sunnanvindur blæs kröftuglega. Þegar við lítum til fjalla eru þau hulin mistri. Sennilega er þetta fok frá hálendinu. Við höfum átt yndislega daga hér í heitasta sumri sem við munum eftir. Það eru mikil forréttindi að geta verið hér i sveitinni með útsýni til jökla og fjalla. Fátt finnst mér betra en nálægðin við náttúruna, geta notið litadýrðar allra árstíða. það er nærandi að ganga hér útí holtið horfa á lyngið sem breytir lit eftir árstíðum, setjast i mjukan mosann og virða fyrir sér alla steinana sem er nóg af í lóðinni okkar. Inn á milli smárra steina má sjá liítil birkilauf sem berjast fyrir tilverunni. en það eru lítil fræ sem fokið hafa af plöntum sem við höfum groðursett eða sjálfsprottið kjarr sem dreifist hér um holtið. Skarðsheiðin og Hafnarfjallið gleðja augað hvern einasta dag og breyta endalust um lit eftir skýjafari og duttlungum sólarinnar. í austri blasa við jöklarnir, Eiríksjökull, Langjökull og þar fyrir sunnan sjánum við fjallið Skjaldbreiður.Þegar sólin sest og skyggni er gott upplifum við þá fallegustu litasynfóníu sem hægt er að hugsa sér. fjöllin verða í fjólubláum tónum og sólin baðar klettaborgina sem er handan Norðurár geislum sínum.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.